Sóttu slasaðan mann sunnan við Kistufell á Reykjanesskaga
Um miðjan dag í gær, sunnudag, var björgunarsveitin Þorbjörn, ásamt fleirum, kölluð út vegna göngumanns sem hafði hrasað og slasað sig illa á hné. Göngumaðurinn var þá staddur rétt sunnan við Kistufell, sem er skammt frá Litla Hrút sem margir þekkja. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Þorbirni.
Leiðin upp að Kistufelli er nokkuð löng og seinfarin en um klukkutíma tók að komast að göngumanninum. Eftir að sjúkraflutningamenn höfðu verkjastillt viðkomandi var honum komið fyrir í sérstökum börum sem svo var komið fyrir í sérútbúnum buggybíl björgunarsveitarinnar. Þannig var viðkomandi fluttur upp á Fagradalsfjall þar sem hann var færður yfir í jeppa björgunarsveitarinnar sem kom honum loks í sjúkrabíl sem beið við Suðurstrandaveg. Um eina og hálfa klukkustund tók að koma viðkomandi í sjúkrabílinn.
Slökkvilið Grindavíkur og Brunavarnir Suðurnesja tóku einnig þátt í verkefninu og eru þeim færðar þakkir fyrir frábært samstarf eins og alltaf, segir í tikynningunni
Meðfylgjandi myndir voru teknar í útkallinu.





