Unnar sendir frá sér tilkynningu um framboð
„Reykjanesbær á að vera staður þar sem fólk vill búa, vinna og blómstra,“ segir Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóri en hann sendi frá sér yfirlýsingu um framboð til leiðtogasætis Sjálfstæðisflokksins í Reykjaesbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Framboðsyfirlýsing Unnars:
Kæru vinir og bæjarbúar Reykjanesbæjar,
Ég lýsi hér með yfir framboði til oddvitasætis Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ. Ég býð fram krafta mína, reynslu og skýra framtíðarsýn fyrir bæinn okkar. Markmið mitt er að leiða öflugt teymi innan Sjálfstæðisflokksins sem vinnur af heiðarleika, gagnsæi og ábyrgð, með skýra áherslu á þjónustu við íbúa, sterkt atvinnulíf og traustan rekstur bæjarins – teymis sem hefur ástríðu fyrir því samfélagi sem við búum í.
Ég hef víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum og stefnumótun, bæði úr atvinnulífi og félagastarfi. Ég hef reynslu í að byggja brú milli ólíkra hagsmuna, hrinda verkefnum í framkvæmd og fylgja þeim eftir til árangurs, líkt og við störf sem skólastjórnandi bæði í Holtaskóla og Háaleitisskóla hafa sýnt. Ég hlusta á raddir allra íbúa og í framhaldi tek upplýstar ákvarðanir. Liðsheild, jafnrétti og ástríða fyrir bæjarfélaginu okkar eru mér leiðarljós, ég trúi á skýra ábyrgð, samvinnu og opið samtal um hvernig samfélag við viljum skapa.
Helstu áherslur mínar eru:
- Farsæll og stöðugur fjármálarekstur bæjarins, vandaðar forgangsraðanir og gagnsæi í ákvarðanatöku.
- Öflugt íþrótta-, skóla- og frístundastarf, þar sem börn og ungmenni njóta fyrsta flokks umhverfis, aðstöðu og tækifæra.
- Framfarir í innviðum, samgöngum og skipulagi með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi.
- Sterkt og fjölbreytt atvinnulíf sem dregur að sér nýsköpun, fjárfestingu og góð störf.
- Heilsueflandi, öruggt og fjölskylduvænt samfélag með aðgengi að þjónustu og menningu fyrir alla.
Ég fæddist í Neskaupstað árið 1975 en fluttist til Reykjanesbæjar 12 ára gamall. Ég er menntaður rafvirki, lögreglumaður og er með B.A. í guð- og miðaldafræði. Tók kennsluréttindin árið 2008 og svo master í mannauðstjórnun árið 2023. Ég hef mikið starfað innan menntageirans, bæði sem kennari og stjórnandi í Reykjanesbæ. Ég hef unnið að hinum ýmsu verkefnum í íþróttamálum bæjarins, sem knattspyrnuþjálfari og í stjórnarsetu. Ég sat í stjórn Knattspyrnusamband Íslands á árunum 2020-2024, á krefjandi tímum. Ég er giftur Jónu Birnu Ragnarsdóttur og eigum við þrjú börn.
Fyrir okkur Sjálfstæðismenn er kjarninn skýr: Reykjanesbær á að vera staður þar sem fólk vill búa, vinna og blómstra. Ég er reiðubúinn að leggja á mig þá vinnu sem þarf, hlusta af virðingu, miðla og leiða af festu. Með stuðningi ykkar mun ég starfa sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, af einlægni og sannfæringu fyrir sterkan, framsækinn og ábyrgan Reykjanesbæ.
Með fyrirfram þakkir um traustið og ég hlakka til málefnalegrar umræðu og samstöðu um framtíð bæjarins undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.
Unnar Stefán Sigurðsson.






