Framúrskarandi fyrirtæki 2025
Framúrskarandi fyrirtæki 2025

Fréttir

Samstarf um forvarnar- verkefnið Ábyrg saman
Frá undirritun samkomulagsins í ráðhúsinu í Garði á dögunum. VF/hilmarbragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 9. nóvember 2025 kl. 06:18

Samstarf um forvarnar- verkefnið Ábyrg saman

Suðurnesjabær, Vogar og Lögreglan á Suðurnesjum taka höndum saman í þágu barna og fjölskyldna

Samstarfssamningur milli Suðurnesjabæjar, sveitarfélagsins Voga og Lögreglunnar á Suðurnesjum um nýtt forvarnarverkefni sem ber heitið Ábyrg saman var undirritaður á dögunum í ráðhúsinu í Garði að viðstöddum fulltrúum frá velferðar-, mennta- og tómstundasviðum sveitarfélaganna, bæjarstjórum og fulltrúum lögreglunnar.

Verkefnið Ábyrg saman miðar að því að efla forvarnir og bregðast strax við þegar fyrstu afskipti lögreglu verða af barni sem sýnir merki um áhættuhegðun. Markmiðið er að styðja fjölskyldur, efla fræðslu og stuðning og draga þannig úr líkum á að hegðunin endurtaki sig.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Í stað þess að foreldrar fái formlegt bréf frá barnavernd eftir tilkynningu munu þeir nú fá boð um samtal þar sem barnaverndarstarfsmaður og fulltrúi lögreglu fara sameiginlega yfir málið. Í slíku samtali fá foreldrar og barn tækifæri til að ræða aðstæður, fá fræðslu og kynna sér þau úrræði sem í boði eru.

„Markmiðið er að grípa inn í strax, áður en vandinn stækkar,“ segir Unnur Ýr Kristinsdóttir, íþrótta- og tómstundafulltrúi Suðurnesjabæjar. „Við viljum með þessu skapa traustara samstarf milli foreldra, sveitarfélags og lögreglu, þar sem við sýnum sameiginlega ábyrgð á velferð barna í okkar samfélagi.“

Verkefnið byggir á heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna nr. 3 – Heilsa og vellíðan – og er liður í markvissu samstarfi sveitarfélaga og lögreglu um að tryggja börnum öruggari og heilbrigðari uppvöxt. Með því að leggja áherslu á snemmtæka íhlutun og jákvætt samtal í stað formlegra viðbragða er stigið mikilvægt skref í átt að mannúðlegri og skilvirkari forvörnum á Suðurnesjum.

Dubliner
Dubliner