Mótmælir skerðingu á grænum svæðum
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 7. október lagði Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar, fram bókun þar sem flokkurinn mótmælir harðlega fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi Dalshverfis 2. áfanga sem fela í sér skerðingu á grænum svæðum.
Í bókuninni segir að þetta sé í annað sinn sem meirihlutinn, Framsókn, Samfylkingin og Bein leið, leggi til að gengið verði á græn svæði í hverfinu til að mæta eftirspurn eftir lóðum. Umbót hafi áður mótmælt sambærilegum hugmyndum í desember 2024 og sú afstaða sé óbreytt.
„Við teljum að þessi nálgun sé ekki aðeins slæm hugsun heldur skipulagsslys af hálfu meirihlutans,“ segir í bókuninni. „Það er óábyrg stjórnsýsla að fórna grænum svæðum íbúa í skammtímahagsmunum í stað þess að tryggja nægt framboð lóða með markvissri langtímaáætlun.“
Margrét segir að græn svæði séu lífsgæði sem íbúar eigi rétt á, og að mörg heimili hafi fjárfest í húsnæði sínu í þeirri trú að slík svæði yrðu áfram hluti nærumhverfisins.
„Í stað þess að efla þau til útivistar og samfélagslegrar notkunar er þeim fórnað af meirihlutanum,“ segir hún ennfremur.
Umbót krefst þess að horfið verði frá skammtímahugsun í skipulagsmálum og að hafin verði framsýn og ábyrg vinnsla sem bæði tryggi framboð lóða og verndi græn svæði sem skipta íbúa miklu máli.
Flokkurinn greiddi ekki atkvæði í málinu og sat hjá við afgreiðslu liðarins.








