Rúmfatalagerinn 17.maí
Rúmfatalagerinn 17.maí

Fréttir

Þúsund ný störf á Keflavíkurflugvelli í sumar - forstjóri Isavia bjartsýnn
Stærsta framkvæmdin er stækkun á austurbyggingu sem sést hér til vinstri. Elsti partur flugstöðvarinnar til hægri. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 18. apríl 2021 kl. 17:53

Þúsund ný störf á Keflavíkurflugvelli í sumar - forstjóri Isavia bjartsýnn

„Mikilvægt að geta hlaupið hratt,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. Tólf milljarða hlutafjáraukning ríkisins í Isavia tryggir mannaflsfrekar framkvæmdir næstu mánuði. Bretar og Bandríkjamenn í ferðagír.

Um eitt þúsund störf verða til vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli og við flugstöð Leifs Eiríkssonar í sumar. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia er bjartsýnn á endurkomu flugsins en segir að 12 milljarða hlutafjárinnspýting ríkisins í fyrirtækið sér gríðarlega mikilvæg og verði upphafið að nýrri endurreisn starfseminnar á Keflavíkurflugvelli.

„Þessar fyrirætlanir sem við kynntum í upphafi árs eru að verða að veruleika. Við höfum verið að undirbúa þær með útboðum, verðfyrirspurnum og fleiru. Tímaáætlanir eru að standast. Við erum frekar að ná að spýta í frekar en hitt miðað við upphaflegu fyrirætlanir, þannig að við erum mjög spennt fyrir þessum framkvæmdum sem eru að hefjast.“

Sólning
Sólning

Mannaflsfrekar framkvæmdir

Um sex framkvæmdir á flugvallarsvæðinu er um að ræða. Það er því óhætt að segja að líf sér að kvikna á nýjan leik á Keflavíkurflugvelli, burt séð frá öllum fréttum um heimsfaraldur sem hefur stöðvað hjól ferðaþjónustunnar hér á landi og víðar. Hvað sem afléttingum og meiri ferðagleði líður þá sjá menn nú fyrir endann á göngunum þó ekki sé vitað hversu lokakaflinn verði erfiður. Sveinbjörn er afar ánægður með þessa stóru hlutafjáraukningu sem mun hafa mikið að segja fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum.

„Stærsta framkvæmdin er stækkun á austurbyggingu sem felst aðallega í því að uppfylla ytri kröfur hjá okkur. Það er framkvæmd upp á átta til tíu milljarða og hún mun skapa mikið af beinum störfum á flugvellinum. Önnur framkvæmd, er stækkun á hliði tíu eins og við kölluð það. Við setjum landgöngubrú þar líka. Báðar þessar framkvæmdir hefjast í sumar og undirbúningur fyrir þær hefur gengið vel. Svo eru tvær framkvæmdir á flugbrautum sem snúa að akbrautum, nýframkvæmd og viðhaldi. Við flýttum þeim framkvæmdum eftir að við fengum fjármögnun hjá ríkinu, bæði til að nýta tímann á meðan það er enn lítil flugumferð sem sparar okkur fullt af fjármunum og svo eru þær mannaflsfrekar. Þá erum við að tikka í fleiri box hvað varðar nýtingu á hlutafjáraukningunni, að búa til sem mest úr henni. Þá eru ónefndar tvær vegaframkvæmdir í aðkomu að flugstöðinni en mikilvægar engu að síður því með þeim erum við að auka umferðaröryggi á flugvallarsvæðinu. Það eru frábært að geta farið í allar þessar framkvæmdir á meðan flugumferð er svona lítil.“

Stór framkvæmd, tengibygging milli norður- og suðurbyggingar, er ekki inni í þessum framkvæmdapakka nema að litlu leyti sem tengist framkvæmdunum í austurbyggingunni en Sveinbjörn segir að hún sé að verða tilbúin á teikniborðinu og farið verði í hana haustið 2022 eða vorið 2023 og verði kláruð á árunum 2024–2025.

Þúsund störf

– Hvað gerið þið ráð fyrir því að þessar framkvæmdir séu að skapa mörg bein og óbein störf á framkvæmdatímanum?

„Þetta er nokkuð árstíðabundið en yfir hásumarið verði samtímastörf, beint við framkvæmdirnar um 700 en einnig að það verði til um 200–300 óbein störf á svæðinu í kringum flugvöllinn þannig að í heildina verði þetta um eitt þúsund störf sem verða til beint og óbeint tengt þessum framkvæmdum í sumar. Framkvæmdirnar taka mis langan tíma, lengst um tvö ár þannig að störfin við þær verða eitthvað færri yfir veturinn.“

Isavia fékk fjóra milljarða króna hlutafjáraukningu í apríl á síðasta ári sem var eyrnamerkt framkvæmdum sem farið var í á síðasta ári og eins til að geta lifað af tekjuleysi í ákveðinn tíma.

„Við tryggðum okkur lánsfé sem gerði það að verkum að við gátum haldið uppi ákveðnum umsvifum sem tengdust framkvæmdum en við treystum okkur ekki til að skuldbinda okkur í einhver stærri verkefni vegna óvissu með fjármögnun til framtíðar. Svo fórum við að vinna með þá hugmynd síðsumars og um haustið að reyna að koma sem mestu af stað, nýta tímann. Við áttum góð samskipti við stjórnmálamenn frá Suðurnesjum og fjármálaráðuneytið og það sáu allir haginn í þessu og lögðust á árar með að klára það mál. Þannig að þessi hlutafjáraukning í Isavia lenti hvergi í neinni fyrirstöðu. Það sáu allir hagkvæmnina í þeirri ákvörðun.“

Bretar og Bandaríkjamenn á leiðinni

– Er hægt að sjá eitthvað hvað er að gerast í flugmálum á næstunni?

„Í byrjun þessa árs var ég enn á þeirri skoðun að flug myndi hefjast í apríl, maí en það er ekki að gerast. Það er mikil umræða í þjóðfélaginu um það hvenær og með hvaða hætti það eigi að opna landamærin. Það snýst auðvitað um hvenær ferðatakmörkunum verður aflétt og flugumferð fer af stað. Við getum haft nokkuð sjálfræði um það hér á Íslandi með stýringu á okkar landamærum en það sem er jákvætt núna er að þótt tímasetningin sé nokkuð óljós þá erum við með tvo okkar stærstu markaði á sjóndeildarhringnum, Bandaríkin og Bretland. Það er búið að bólusetja meirihluta Breta og bólusetningar hafa gengið mjög vel í Bandaríkjunum og komin ferðahugur í báðar þjóðir. Við höfum verið að fá mjög mikla og góða umfjöllun og við finnum fyrir mjög miklum áhuga flugfélaga, Icelandair er í startholunum og erlendu flugfélögin okkar hafa verið að bæta við sig í sínum áætlunum fyrir sumarið. Þessir tveir markaðir voru að koma með um 60% af öllum ferðamönnum sem komu til Íslands. Þannig að við erum full bjartsýni. En það má ekki gleyma því að til að ná þessum massa inn verðum við að ná þessum flugtengingum inn aftur. Þær verða til þegar leiðakerfi Icelandair fer af stað þannig að það skiptir máli að þegar allt fer í gang aftur að öll hjól verði smurð hjá okkur. Ég er sannfærður um það að þegar þetta fer í gang aftur verði endurheimtur okkar frekar hraðar þó svo að á þessum tíma megi líka gera ráð fyrir einhverjum bakslögum.“

– Það voru að koma nýjar fréttir um flugfélagið Play.

„Það er bara jákvætt hjá okkur og aðdáunarvert að sjá hvernig fyrirtækið hefur farið í gegnum heimsfaraldur og vera á þessum stað. Það verður spennandi að sjá næstu skref þar.“

Gott samband við flugfélögin

– Hefurðu kíkt í kristalskúluna, viltu spá eitthvað í næstu mánuði?

„Það er auðvitað algerlega ómögulegt að spá en auðvitað er það þannig að það eru komnar ákveðnar væntingar upp hjá manni. Það eru ákveðnir hlutir að raungerast, m.a. í bólusetningum og síðan hitt, að finna fyrir áhuga hjá ferðamönnum og flugfélögunum. Það er gott að vita að flugfélögin eru þarna ennþá og það er áhugi hjá þeim og sum eru meira að segja að hugsa um að fljúga meira en þau gerðu fyrir Covid. Þetta er allt mjög jákvætt. Svo er það tímasetningin. Ef að það léttir á ferðatakmörkunum um mitt sumar þá held ég að veturinn hjá okkur verði góður. Það eru allir möguleikar til þess verði heimsfaraldur ekki að þvælast fyrir okkur eins og hann hefur verið að gera.“

Við höfum reynt og náð að halda góðu sambandi við flugfélögin og við höfum sett til hliðar markaðsstuðning þar sem við ætlum að auðvelda þeim að taka ákvörðun um að byrja að fljúga aftur til Íslands. Við gerum það með því að deila með þeim áhættunni. Það er ákveðin fjárfesting að byrja að fljúga hingað. Þau þurfa að markaðssetja og fleira og líklega er fyrstu flugin ekki með þeirri sætanýtingu sem þau óska eftir þannig að við komum til móts við þau með ákveðnum markaðsstuðningi til að hjálpa þeim að taka fyrstu skrefin.“

– Það er ekki langt síðan allt var á fleygiferð á Keflavíkurflugvelli og í flugstöðinni. Sérðu ykkur hjá Isavia og rekstraraðila á svæðinu tilbúna til að ráða starfsfólk frekar hratt?

„Já, algerlega. Það er mikilvægt að við getum hlaupið hratt þegar til kemur. Við hjá Isavia höfum alla burði til þess og höfum passað upp á það en það hafa oft verið erfiðar ákvarðanir í tekjuleysinu að halda innviðunum þannig að við getum sett allt í gang hratt og vel. Við höfum ekki fest neinar sumarráðningar ennþá en við reynum að vinna í því hvernig við getum stytt þjálfunartímann til þess að geta hlaupið af stað. Ég veit að okkar viðskiptafélagar hér á flugvellinum eru sama sinnis. Við höfum verið í góðu sambandi við þá en þeir eru lykill að óflugtengdumtekjum okkar sem eru mikilvægar fyrir okkur. Það er því mikilvægt að þetta samfélag á flugvellinum virki. Isavia er bara lítill hluti af því. Þetta er stórt samfélag.“

– Sérðu fyrir þér einhverja breytta hegðan hjá ferðamanninum eftir Covid-19?

„Það er fullt af hlutum sem við erum í óvissu með. Hvernig mun til dæmis ferðamaðurinn haga sér í flugstöðinni, m.a. í margmenni. Hvernig mun hann kaupa sér veitingar. Það er ekki víst að hann fari í salatbarinn og treystir ekki alveg umhverfinu sem hann gerði áður. Það er þessi hegðun farþega sem er óvissa um og við erum að undirbúa okkur undir það að vera sveigjanleg. Það verður undir okkur komið að bregðast við þessum hugsanlegu breytingum á réttan hátt, ef þær verða.“

Sveinbjörn Indriason, forstjóri Isavia er bjartsýnn á næstu vikur og mánuði á Keflavíkurfluvelli.

Helmings fækkun starfa

– Þið hafið þurft að taka erfiðar ákvarðanir á covid ári, m.a. að segja upp fjölda fólks. Á sama tíma hafið þið reynt að halda innviðunum, er það ekki?

„Það var náttúrulega gríðarlega erfitt að þurfa að segja upp mörgum starfsmönnum en áttum ekki kost á öðru því það vantaði hreinlega verkefni. Þau voru farin. Í mars í fyrra vorum við með um 740 manns í vinnu hjá móðurfélaginu, sem sér um rekstur Keflavíkurflugvallar. Núna ári síðar á sama tíma vorum við með um 490 manns í starfi. Þá hafði einnig orðið einhver fækkun vegna falls Wow air árið 2019. Við höfum því þurft að vera á bremsunni, í vörn í nokkuð langan tíma en við vitum á móti að það er mikið af góðu fólki þarna úti sem við treystum á að muni koma og taka sprettinn með okkur þegar þar að kemur. Fjöldi stöðugilda 2019 til 2020 hefur fækkað nærri því um helming þannig að það segir sig sjálft að það var ekki auðvelt. En við höfum þó náð að halda innviðunum í lagi til að vera tilbúin þegar hjólin fara að snúast aftur. Svo við verðum ekki flöskuhálsinn. Það er lykilatriði.

Við náðum að tryggja fjármögnun til þess að fara í þessar framkvæmdir á annað tug milljarða í óvissuástandi og með því erum við að taka mikilvæg skref þó við séum á sama tíma tekjulaus.“

– Er eldgos við Grindavík ekki að fara að hjálpa Íslandi í endurreisninni?

„Gosið er að fá mikla umfjöllun og hjálpar okkur klárlega í markaðssetningunni. Það er klárt mál að það munu koma ferðamenn hingað eingöngu til að sjá gosið. Það er aðgengilegt og hefur mikið með sér en það er ansi nálægt okkur, í bakgarðinum eiginlega. Ég hef þó ekki trú á því að þetta muni trufla starfsemi flugvallarins en við þurfum þó að vera meðvituð um þætti eins og gasmengun og annað, m.a. gagnvart starfsmönnum hér á hlaðinu. Við höfum þegar hafið vinnu með stjórnvöldum um hvernig megi skoða það mál og þá þróun.“

– Nú stendur til að opna landamærin 1. maí. Hvaða tilfinningu hefur þú fyrir þeirri ákvörðun?

„Við höfum farið að tilmælum stjórnvalda að öllu sem viðkemur Covid. Það sem skiptir máli sem kemur að opnun landamæranna er að þegar stjórnvöld taka ákvörðun er að við fylkjum okkur á bak við hana. Allir vinni þá saman að því að opnunin verði árangursrík. Það er erfitt að hafa skoðun á því hvort það sé skynsamlegt eða ekki í miðju heimsfaraldri. Samstaða verður þó lykilatriði.“

Fjögur ný landgönguhús hafa verið byggð á Keflavíkurflugvelli.

Covid þreyta

Það var ráðist í verulegar skipulagsbreytingar fyrir Covid. Skiptum félaginu upp þannig að við tókum flugleiðsöguhlutann og innanlandsflugvellina og settum í dótturfélög og sú breyting hefur hjálpað okkur gríðarlega mikið. Þessi mismunandi félög, dótturfélög og móðurfélagið hafa í Covid getað tekið ákvarðanir sem hentar þeim. Það gekk vel. En við höfðum einnig nýverið gengið frá skipulagsbreytingum á Keflavíkurflugvelli og við vorum ekki búin að innleiða þær breytingar að fullu þegar heimsfaraldur skall á. Við eigum því eftir að láta á þær reyna og það er oft í svona skipulagsbreytingum að þegar á reynir þarf að aðlaga þetta og hitt. Þannig að við finnum alveg að það er smá óvissa, óöryggi í fólki. Það er komin covid þreyta í okkur öll þannig að það hefur verið áskorun að halda skipulaginu. Við erum með framúrskarandi stjórnendur hjá okkur þannig að þetta hefur gengið ágætlega en við finnum alveg að þetta hefur tekið á.

– Nú hefur verið fjallað um staðsetningu höfuðstöðva Isavia, af hverju þær eru ekki á Suðurnesjum.

„Ég átta mig ekki alveg á umræðunni sem virðist vera í gangi varðandi skrifstofuhald félagsins í Hafnarfirði.

Að jafnaði eru yfir 90% af öllum starfsmönnum móðurfélags Isavia með starfsstöðvar sínar á Keflavíkurflugvelli eða í Reykjanesbæ. Aðrir starfsmenn eru með sína starfsstöð á skrifstofum félagsins í Hafnarfirði og eru þeir allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Sama hvað sem þessu líður þá er alveg ljóst í mínum huga að við eigum öll sameiginlega að setja okkar orku í það sem býr til raunveruleg verðmæti á Suðurnesjum sem er að skapa störf.“

Hluti af framkvæmdunum eru viðgerðir og endurnýjun á akbrautum, sem hafa ekki fengið „hressingu“ síðan Bandaríkjaher var á Keflavíkurflugvelli.

Langflest fyrirtæki af Suðurnesjum í rammasamningi

Um síðustu. áramót voru gerðir nýir Rammasamningar iðnaðarmanna hjá Isavia við fjölda verktaka vegna framkvæmda- og viðhaldsverkefna á Keflavíkurflugvelli. Slíkir samningar hafa verið í gildi frá árinu 2016 og eru langflest þessara fyrirtækja, sem heyra undir samninginn, starfrækt á Suðurnesjum. Þau sem eru það ekki hafa jafnan yfir að ráða starfsmönnum sem búsettir eru þar. Samningarnir núna gilda í þrjú ár og eru með framlengingarákvæðum.

Þeir flokkar sem leitað var tilboða í voru t.a.m. húsasmíði, múrverk og flísalögn, pípulagnir, loftræstikerfi, rafvirkjun, dúklagning, málun, málmiðnaður, vélvirkjun, skrúðgarðyrkja og umhirða lóðar, jarðvinna og malbiks- og steypuviðgerðir.

Samkvæmt heimasíðu Isavia voru langflest fyrirtækin sem lögðu fram tilboð af Suðurnesjum og niðurstöður útboðsins einnig flest þeim í hag. Á yfirlitinu má sjá t.d. TSA, Tos smíði, Múrhamar, Lagnaþjónustu Suðurnesja, Blikksmiðju Suðurnesja, Blikksmiðju Ágústar, Rafholt, Bergraf, Bergraf-Stál, M2 gólflagnir, Málningarþjónustu JRJ, Grjótgarða, Ístak og ÍAV.

Veltan á rammasamningunum hefur jafnan verið töluverð og legið á bilinu frá 500-1.000 m.kr. á ári. Mannaflsþörfin í verkefnum rammasamninganna telur í tugum starfa mánaðarlega hjá verktökunum og hefur verið styrk stoð undir aðra verkefnastöðu þeirra á undanförnum árum.