Fréttir

Þakkar MSS fyrir stóran hluta af sinni skólagöngu
María Sigurðardóttir og Guðjónína Sæmundsdóttir, sem veitir MSS forstöðu. VF-myndir: Hilmar Bragi
Föstudagur 4. febrúar 2022 kl. 10:44

Þakkar MSS fyrir stóran hluta af sinni skólagöngu

María Sigurðardóttir, fyrrverandi nemandi MSS, Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, hlaut í gær viðurkenningu sem fyrirmynd í námi fullorðinna hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Valið nær yfir allt landið en viðurkenningin var afhent í húsnæði MSS í Reykjanesbæ og var athöfnin hluti af ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem var í beinu streymi.

María fann sig ekki grunnskóla og hætti að mæta í lok 8. bekkjar og útskrifaðist því ekki úr grunnskóla. Vegna röð óvæntra uppákoma þá tók María þá ákvörðun að breyta um stefnu í lífinu þá orðin 23 ara gömul. Hún fór á fund náms- og starfsráðgjafa hjá Miðstöð símenntunar a Suðurnesjum sem fór yfir nokkra möguleika á námsleiðum fyrir hana sem varð til þess að hún skráði sig í Skrifstofuskóla 1 og var sest aftur á skólabekk.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fljótlega kom í ljós að hún var búin að finna sig í námi og eftir útskrift úr skrifstofuskólanum skráði hún sig í Menntastoðir með það markmið í huga að klára ígildi stúdentsprófs.

María Sigurðardóttir með fulltrúum Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum og fjölskyldu.

Með miklu skipulagi hafðist þetta og útskrifaðist María frá Menntastoðum í desember 2019. María flutti útskriftaræðu nemenda og hafði hún orð á því að þegar námið byrjaði þurfti hún að beita sjálfa sig gríðarlegum aga eins og bara að setjast niður og læra, tók á. En sá agi sem hún hafði tileinkað sér hafði þau jákvæðu áhrif að þegar hún hóf nám við Háskólagrunni HR reyndist henni auðveldara vegna jákvæðs hugafars, seiglu og mikinn vilja. María útskrifaðist í júní 2021 með ígildi stúdentsprófs frá HR.

Að hennar sögn er hún nokkuð viss um að þetta hefði ekki farið svona vel, ef það væri ekki fyrir þennan stuðning sem hún hefur fengið frá MSS. Starfsfólkið smitaði hana rosalega af skólabakteríu sem hún býr að í dag. Í dag er María í áfengis- og vímuefnaráðgjafanámi hjá SÁÁ og að hennar sögn þá þakkar hún MSS fyrir stóran hluta af sinni skólagöngu.