Fréttir

Reykjanesbær eykur sýnileika og gagnsæi í umhverfis- og sjálfbærnimálum
Magnús Jónatansson og Victor Pálmarsson frá Laufinu, Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, og Anna Karen Sigurjónsdóttir, sjálfbærnifulltrúi Reykjanesbæjar, við undirritun samningsins. VF/JPK
Miðvikudagur 31. maí 2023 kl. 15:02

Reykjanesbær eykur sýnileika og gagnsæi í umhverfis- og sjálfbærnimálum

Reykjanesbær hefur gert samstarfssamning við Laufið, fyrstu grænu upplýsingaveituna á Íslandi, sem felur í sér aðgang að hugbúnaði Laufsins og greiningum, auk aðkomu sjálfbærniráðgjafa Laufsins við fræðslu, innleiðingu og ráðgjöf varðandi sjálfbærni. Einnig verður kortlögð staða stofnana og skóla Reykjanesbæjar. 

Sjálfbærniráðgjafar Laufsins munu aðstoða stjórnendur stofnana bæjarfélagsins við að ná sínum markmiðum sem samanstanda af flokkun úrgangs, kolefnisjöfnun, virkri umhverfisstefnu, miðlum þekkingar til starfsmanna ásamt þátttöku í hringrásarhagkerfinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samhliða þessu verkefni mun Reykjanesbær hvetja stjórnendur fyrirtækja í bæjarfélaginu að nýta sér kynningarfundi þar sem fulltrúar Laufsins munu fræða þá um mikilvægi þess að vera ábyrgur fyrirtækjastjórnandi þegar kemur að umhverfismálum og um leið hvernig best er að takast á við áskoranir og reglugerðir framtíðarinnar

Reykjanesbær og Laufið munu því setja á dagskrá sérstaka umhverfisviku fyrir stjórnendur fyrirtækja þar sem fjallað verður um lausnir og leiðir fyrirtækja til þess að vera viðbúin og um leið skapa sterka ásýnd, því saman getur Reykjanesbær verið öðrum bæjarfélögum og fyrirtækjum til fyrirmyndar.

Samningurinn handsalaður.

Fyrsta græna upplýsingaveitan

Laufakerfið er stafrænn vettvangur sem leiðir stjórnendur áfram í einföldum en mikilvægum aðgerðum sem draga úr umhverfisspori og hjálpa til við að stuðla að ábyrgu samfélagi. Markmiðið er einnig að valdefla neytendur og gefa þeim kost á að taka upplýstar ákvarðanir um neyslu sína eftir því hversu vel stofnanir og fyrirtæki eru að standa sig í sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð. 

Laufið skiptist í fimm lauf og græn skref sem tengjast meðal annars Heimsmarkmiðunum. 

Hvert lauf inniheldur skýrar og mælanlegar aðgerðir:

  • Flokkun úrgangs – flokkun úrgangs á ábyrgan hátt
  • Umhverfisstefna – skýr umhverfisstefna, mótuð af starfsfólki, kynnt hagaðilum og birt á laufid.is
  • Miðlun þekkingar – stutt netnámskeið á vegum Laufsins
  • Loftslagsáhrif – losun gróðurhúsalofttegunda reiknuð og samdráttaráætlun sett fram
  • Hringrásarsamfélag – mótun innkaupstefnu með áherslu á notað umfram nýtt
  • Grænu skrefin eru rúmlega 100 talsins og sérsniðin að ólíkum þörfum viðskiptavina
Laufið er fyrsta græna íslenska upplýsingaveitan. Svona lítur viðmótið út.

Grænu skrefin samanstanda af rúmlega eitt hundrað grænum og umhverfisvænum hugmyndum sem fyrirtæki geta nýtt sér og ráðist í til að bæta sig í umhverfismálum.

Græn skref atvinnulífsins eru að stórum hluta byggð á aðgerðum úr Grænum skrefum fyrir ríkisstofnanir sem rekin eru af Umhverfisstofnun en hafa hér verið aðlagaðar, af Laufinu, fyrir atvinnulífið. ​ Þær upplýsingar sem fyrirtæki setja inn á vef Laufsins birtast í leitarvél á www.laufid.is sem gerir Laufið að fyrstu grænu íslensku upplýsingaveitunni. 

Við þróun á Laufakerfinu voru viðmið vottana eins og Svansins, ISO 14001, Evrópublómsins, Bra Miljöval og Bláa engilsins rýndar. Einnig voru viðmið flokkunarkerfis ESB, European Commission GPP, Handbók Festu og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna skoðuð, svo eitthvað sé nefnt.

Laufið er ekki vottunaraðili en hugbúnaðurinn byggist á fyrrgreindum viðmiðum.

Uppbygging og þróun Laufsins hefur tekið rúm tvö ár og hefur verkefnið verið unnið í nánu samtali við Umhverfisstofnun, umhverfisráðuneytið, Landvernd, Unga umhverfissinna og fleiri aðila til að styrkja hana hugmyndina enn frekar.