Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Fréttir

Rekstur Voga á réttri leið
Mánudagur 27. maí 2024 kl. 09:30

Rekstur Voga á réttri leið

Ársreikningur 2023 samþykktur í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga

„Þrátt fyrir krefjandi aðstæður gekk rekstur Sveitarfélagsins Voga betur en áætlanir gerðu ráð fyrir á síðasta ári. Sá góði árangur sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins er ekki síst að þakka skýrri markmiðasetningu sem bæjarstjórn hefur unnið samkvæmt síðustu ár og miðar að því að auka sjálfbærni í rekstri sveitarfélagsins og tryggja að sveitarfélagið geti staðið undir nauðsynlegri uppbyggingu og mætt nýjum áskorunum sem óhjákvæmilega fylgja þeim hraða vexti sem hefur verið í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu," segir Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga, við afgreiðslu ársreikningsins á vef bæjarins.

Rekstrarniðurstaða betri en áætlað var á árinu 2023

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2023 námu heildartekjur samstæðu A og B hluta 2.095 m.kr á árinu og jukust um 24,2% frá fyrra ári.  Rekstrargjöld samstæðu námu 1.892 m.kr. á árinu og jukust um 17,7% á milli ára.  Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir var jákvæð um 202 m.kr.  en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir yrði jákvæð um 122 m.kr. Rekstrarniðurstaða að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða var neikvæð um tæplega 4 m.kr. sem er um 55 m.kr. betri rekstrarniðurstaða en áætlað var. Skýrist betri rekstrarniðurstaða samanborið við áætlanir einkum af hærri tekjum en áætlað var. Verðbólga var meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og hefur það neikvæð áhrif á annan rekstrarkostnað og fjármagnsliði og þar með afkomu.

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Veltufé frá rekstri 9% af tekjum

Veltufé frá rekstri nam 189 m.kr. á árinu, eða sem nemur 9% af rekstrartekjum árins,  sem er umtalsverð aukning frá síðasta ári þegar veltufé frá rekstri var um 70 m.kr. Fjárfestingar á árinu að teknu tilliti til innheimtra gatnagerðargjalda námu 122 m.kr. Stærsta fjárfesting ársins var í fráveitukerfi sem er nú að mestu lokið. Framkvæmdir vegna nýs heilsugæslusels frestuðust til ársins 2024 sem er helsta skýring fráviks um 20 m.kr. frá áætluðum fjárfestingum. Í árslok var handbært fé 154 m.kr. borið saman við 234 m.kr í ársbyrjun.

Skuldaviðmið lækkar niður í 69,2%

Skuldaviðmið skv. reglugerð í árslok 2023 var 69,2% borið saman við 83% í árslok 2022.

Íbúum fjölgað um 22% frá áramótum

Íbúum með skráð lögheimili í Vogum fjölgaði um 12,2% á árinu 2023 og voru þeir 1.500 talsins í árslok. Frá síðustu áramótum hefur íbúum með skráð lögheimili fjölgað um tæp 9% en að meðtöldum þeim íbúum sem hafa skráð aðsetur í Vogum en lögheimili í Grindavík nemur fjölgunin um 22%  frá síðustu áramótum. Í heild eru íbúar í Vogum nú um 1.830 talsins en samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu Íslands voru íbúar í sveitarfélaginu 1.337 talsins í ársbyrjun síðasta árs.