Óbreytt hættumat á Reykjanesskaga
Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi landris og kvikusöfnun undir Svartsengi, þótt smám saman dragi úr hraða kvikuinnstreymis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Út frá fyrri atburðum á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkurnar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar sambærilegt magn kviku hefur safnast fyrir undir Svartsengi og hljóp út í síðasta gosi. Magn kviku sem runnið hefur úr Svartsengi í eldsumbrotunum frá því í mars 2024 hefur verið breytilegt, á bilinu 12–31 milljón rúmmetrar. Samkvæmt líkanreikningum hafa nú um 15 milljónir rúmmetra af kviku safnast undir Svartsengi frá síðasta eldgosi í júlí. Því er enn talsverð óvissa um hvenær næsti atburður verður.
Þar sem innflæðið fer minnkandi hefur tímaramminn á mögulegri tímasetningu næsta atburðar lengst.Meðfylgjandi graf sýnir tímann sem neðri mörkum rúmmálsins var náð, í upphafi október en að efri mörkunum verði náð í fyrri hluta febrúar, miðað við að innflæði haldist óbreytt. Efri mörkin eru miðuð við 23 milljón rúmmetra af kviku, sem er meðaltal af magni kviku sem hefur farið úr Svartsengi í síðustu fimm eldgosum.
Líkanmynd af kvikusöfnun á 4 km dýpi undir Svartsengi. Svörtu punktarnir sýna daglegar mælingar á rúmmáli kviku frá júlí 2025 til dagsins í dag. Skyggða svæðið táknar spá um kvikusöfnun við stöðugan innstreymishraða, en rauð punktalína sýnir líklega þróun ef innstreymishraði heldur áfram að minnka. Áætluð mörk rúmmáls eru 11 og 23 milljón rúmmetrar, sem eru viðmið fyrir mögulegt kvikuhlaup og eldgos.
Jarðskjálftavirkni
Jarðskjálftar við Grindavík og á Sundhnúksgígaröðinni eru fáir og litlir, flesta daga mælast aðeins fáeinir smáskjálftar sem eru um eða rétt yfir M1 að stærð.
Virkni nærri Krýsuvík
Aflögunarmælingar sýna að landsigið sem hófst í Krýsuvík í sumar hefur hægt mjög á sér og aflögun er nú lítil sem engin á svæðinu. Jarðskjálftar í Krýsuvík mælast enn nokkrir á dag, en virkni hefur dregist verulega saman. Heildarfjöldi skjálfta hefur farið úr 250 niður í 100 til 150 á viku. Þetta er í fyrsta sinn frá því í sumar sem skjálftamynstrið sýnir samfellda minnkun.
Hættumat
Hættumatskort hefur verið uppfært og helst óbreytt til 25. nóvember. Veðurstofan fylgist áfram grannt með þróuninni og uppfærir upplýsingar ef breytingar verða.









