Mesta atvinnuleysi á Suðurnesjum í langan tíma
Samkvæmt opinberum tölum Vinnumálastofnunar er skráð atvinnuleysi á Suðurnesjum nú 7,1%. Í tilkynningu frá VMST segir að þróun gefi tilefni til markvissra aðgerða af hálfu Vinnumálastofnunar, í samræmi við lög um atvinnuleysistryggingar og um vinnumarkaðsaðgerðir.
Atvinnuleitendur, sem skráðir eru hjá Vinnumálastofnun, eru hvattir til að hafa samband við þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum. Þar veita ráðgjafar einstaklingsmiðaða þjónustu, sem felur í sér ráðgjöf, stuðning við atvinnuleit, hæfnimat og kynning á úrræðum sem standa til boða.
Upplýsingar fyrir atvinnurekendur:
Þá er greint frá því að atvinnurekendum á Suðurnesjum sé einnig boðin þjónusta og ráðgjöf Vinnumálastofnunar. Stofnunin veiti upplýsingar um vinnumarkaðsúrræði, ráðningarstyrki og aðstoðar fyrirtæki við að finna hæft starfsfólk. Samstarf atvinnurekenda og Vinnumálastofnunar sé lykilatriði til að efla, virkja og styðja við atvinnuleitendur á svæðinu.
„Vinnumálastofnun mun áfram fylgjast náið með þróun mála og grípa til ráðstafana sem miða að því að styðja við atvinnulíf og atvinnuleitendur á Suðurnesjum,“ segir á heimasíðu stofnunarinnar.







