Public deli
Public deli

Fréttir

Mörg og stór tækifæri á Suðurnesjum
Frá fjölmennum fundi Samtaka iðnaðarins sem haldinn var á Courtyard by Marriott í Reykjanesbæ á mánudag um uppbyggingu öflugs atvinnulífs á Suðurnesjum. VF/Hilmar Bragi
Fimmtudagur 25. maí 2023 kl. 06:18

Mörg og stór tækifæri á Suðurnesjum

Húsnæðis- og orkuskortur helsta áhyggjuefnið. | Vantar fólk með iðnmenntun til starfa.

„Það er mikil ánægja hjá okkur sem fórum um svæðið hvað við fengum góðar móttökur. Við heimsóttum iðnfyrirtæki af ýmsum stærðum og gerðum, smá og stór, og það sem einkenndi það er einhvers konar kraftur sem við fundum mjög fyrir hjá fólki í fyrirtækjunum og einnig á fundinum sem við héldum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Víkurfréttir. Samtök iðnaðarins héldu opinn fund á Courtyard by Marriott í Reykjanesbæ á mánudag um uppbyggingu öflugs atvinnulífs á Suðurnesjum.

Húsfyllir var á fundinum þar farið var nokkuð vítt yfir hvað væri í deiglunni á Suðurnesjum. Halldór Karl Hermannsson, sviðsstjóri atvinnu- og hafnamála hjá Reykjanesbæ, kynnti þau verkefni sem eru í gangi og í farvatninu. Hann fór einnig yfir helstu vaxtarsvæði Reykjanesbæjar og hvar væru möguleikar til uppbyggingar en sveitarfélagið hefur yfir miklu landsvæði að ráða til fjölbreyttrar uppbyggingar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Guðmundur Rúnar Daðason, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, greindi frá framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli, en þar er í gangi mikil uppbygging og fyrirliggjandi milljarða króna framkvæmdir á næstu árum.

Samúel Torfi Pétursson, þróunarstjóri Kadeco, kynnti þróunarverkefnið K64 sem unnið er í samstarfi Kadeco, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar og snýr að uppbyggingu við Keflavíkurflugvöll og nærumhverfi til næstu áratuga.

Einnig fluttu tölu þeir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri samtakanna.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.


„Maður sér að það eru mörg tækifæri hér til atvinnuuppbyggingar og þróunar, tækifæri sem vonandi verður hægt að sækja á næstu árum,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir.

Sigurður sagði að það hafi komið fram í heimsóknum sínum til iðnfyrirtækja á Suðurnesjum að það geti verið erfitt að fá fólk til vinnu og það ráðist m.a. af lágu atvinnuleysi heilt yfir. „Við fengum einnig skýr skilaboð um að það skorti húsnæði og þá bar orkumál einnig á góma. Það var mjög gott að heyra frá fólki hérna á svæðinu, annars vegar hvað orkuöflun skiptir máli og að það verði virkjað meira til að hægt sé að nýta þau tækifæri sem eru hér. Og ekki síður eru það tengingarnar og þá er ég að vísa í Suðurnesjalínu II. Við fengum mjög skýr skilaboð um nauðsyn þess að sú lína verði reist sem allra allra fyrst. Við tökum heilshugar undir það og fólk hér á Suðurnesjum á algjöran bandamann í okkur hvað þetta varðar,“ segir Sigurður.

Hann segir að stjórn samtakanna hafi áttað sig á því áður en hún kom í heimsókn til Suðurnesja hversu mikil hugur væri í fólki en það hafi komið á óvart hversu tækifærin væru mörg og stór.

Iðnmenntun var rædd í heimsókn stjórnar SI til Suðurnesja og sérstaklega í ljósi þess hversu erfitt væri að fá iðnmenntað fólk til starfa. Stjórnvöld vilja leggja meiri áherslu á iðnnám en bóknám næsta áratuginn og Sigurður sagði áhugavert að sjá hvað það muni þýða fyrir Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem sé öflugur framhaldsskóli á svæðinu. „Það er svakalegur skortur á fólki með iðnmenntun“.