Fréttir

  • Með 30 - 40% lægri laun en aðrir kennarar
    Frá flutningi Tónlistarskóla RNB í nýtt húsnæði.
  • Með 30 - 40% lægri laun en aðrir kennarar
    Haraldur Árni Haraldsson.
Miðvikudagur 22. október 2014 kl. 12:00

Með 30 - 40% lægri laun en aðrir kennarar

28 af 44 kennurum í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í verkfalli.

„Staðan er slæm. Við erum eina kennarastéttin sem hefur verið skilin útundan í kjarasamningaviðræðum og það er óskýrt hvers vegna. Búið er að semja við grunnskóla- og leikskólakennara en við höfum dregist verulega aftur úr í kjörum. Ef við myndum samþykkja samningana eins og þeir liggja fyrir núna yrðum við á 30-40% lægri launum en grunnskólakennarar. Eðlilega erum við ekki reiðubúin að samþykkja slík kjör,“ segir Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, í samtali við Víkurfréttir. Verkfall tónlistarkennara hófst á miðnætti og tekur það til um 500 kennara í Félagi tónlistarkennara. 93 prósent þeirra samþykktu verkfallsboðun.

28 í verkfalli af 44
Tónlistarskólakennarar hafa undanfarna mánuði átt í kjaraviðræðum við Launanefnd sveitarfélaga án árangurs verkfall er hafið hjá þeim tónlistarkennurum sem tilheyra Félagi Tónlistarskólakennara (FT). Annar hópur tónlistarskólakennara, félagar í Félagi íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), er sömuleiðis í kjaraviðræðum, en hefur ekki boðað til verkfalls. Samninganefndir tónlistarskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga funduðu hjá Ríkissáttasemjara fram á kvöld í gær án þess að leysa kjaradeiluna.
Í Tónlistarskóla Reykjanebæjar starfa 44 tónlistarkennarar, þar af eru 28 í verkfalli en 16 í störfum (félagar í FÍH).

Forskólakennsla fellur niður í 5 skólum af 6

„Hér eru nemendur sem fá enga kennslu en aðrir hluta. Einhverjir komast t.d. á lúðrasveitaræfingu en ekki í tíma á meðan aðrir komast í tíma en ekki á strengjasveitaræfingu. Þá fellur forskólakennsla niður í öllum skólum í Reykjanesbæ nema í Akurskóla,“ segir Haraldur og bætir við að kennarar, nemendur og forráðamenn þeirra hefðu verið búnir undir ef til verkfalls skyldi koma. „Kennarar hafa verið samband við sína nemendur. Ég sá í hvað stefndi og sendi póst á alla forráðamenn í gær og skilgreindi hvernig kennslan myndi skerðast. Skólastjórar vissu það líka.“

Finna fyrir stuðningi
Haraldur segir að í sveitarfélögum eins og í Reykjanesbæ sé mikill metnaður í tónlistar- og menningarstarfi. „Því hljóta sveitarstjórnafulltrúar að vera upplýstir um gang mála. Þeir hljóta að vera óánægðir með stöðuna eins og hún er, bæði er varðar kjör tónlistarkennara og að grípa þurfi til verkfalls. Mögulega geta þeir þrýst eitthvað á samninganefnd sveitarfélaga. Við finnum fyrir stuðningi í samfélaginu og það er kominn tími á leiðréttingu. Við höfum verið með lausa samninga síðan árið 2006.“

VF/Olga Björt