Optical Studio
Optical Studio

Fréttir

Leigubílar mjög nauðsynlegir í þessu fordæmalausa ástandi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 26. mars 2020 kl. 17:21

Leigubílar mjög nauðsynlegir í þessu fordæmalausa ástandi

Leigubílstjórar áttu í dag símafund með Samgöngustofu og Landlækni vegna leigubílaþjónustu. Landlæknir telur að leigubílar séu mjög nauðsynlegir í þessu fordæmalausa ástandi sem nú er. A-Stöðin í Reykjanesbæ mun taka þátt í því að veita þessa leigubílaþjónustu. Allir bílstjórar stöðvarinnar eru meðvitaðir um hættuna af COVID-19 og þess vegna munu þeir fara að öllu eftir tilmælum Landlæknis, segir í tilkynningu frá A-stöðinni.

Til þess að vernda bæði bílstjóra og farþega er ætlast til þess að eftirfarandi reglum sé fylgt:

Varðandi fjölda farþega í hverjum bíl.

Í litlum bílum mega ekki vera fleiri en 2 farþegar og í stórum bíl ekki fleiri en 4 farþegar. Þessi regla gildir ekki t.d. um fjölskyldur og hópa sem hafa eitt saman tíma fyrir ferð.

Hvar má sitja í bílnum?

Gert er ráð fyrir að farþegar sitji aldrei frammí hjá bílstjóra. Í stórum bílum er gert ráð fyrir því að farþegar sitji á aftasta bekk ef því er komið við.

Hvernig er greiðslu háttað?

Ætlast er til þess að allar greiðslur fari fram snertilaust. Þurfi að slá inn pin númer mun bílstjóri sótthreinsa posa að því loknu.

„Bílstjórar A-Stöðvarinnar eru einnig tilbúnir að sendast fyrir þá, sem ekki treysta sér til þess að ferðast með okkur eða á annan hátt, gegn vægu gjaldi. Má þar nefna ferðir í apótek, matvöruverslanir og fleira,“ segir í tilkynningunni.