Valhöll
Valhöll

Fréttir

Landris í Svartsengi heldur áfram
Þriðjudagur 24. september 2024 kl. 18:10

Landris í Svartsengi heldur áfram

Síðasta gos það stærsta á Sundhnúksgígaröðinni

  • Landris heldur áfram á svipuðum hraða
  • Heildarrúmmál síðasta eldgoss var rúmlega 60 milljón rúmmetrar
  • Lítil jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina síðustu vikur

Gögn frá GPS-mælum sýna að landris í Svartsengi heldur áfram að mælast á jöfnum hraða. Líkanreikningar byggðir á þeim gögnum sýna einnig að kvikusöfnun undir Svartsengi hefur haldið áfram á svipuðum hraða síðustu vikur. Samkvæmt mælingum á landrisi og áætlun á hraða kvikusöfnunar svipar þróunin til fyrri atburða á svæðinu.

Frá þessu er greint á vef Veðurstofu Íslands en þar segir jafnfram að myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar Eflu söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar þann 11. september. Gögnin sýna að hraunbreiðan sem myndaðist í síðasta eldgosi (22. ágúst til 5. september) var 61,2 milljón m3 og 15,8 km2 að flatarmáli. Gögnin sýna að síðasta gos var það stærsta á Sundhnúksgígaröðinni frá desember 2023. Þykkasti hluti hraunbreiðunnar er staðsettur í kringum gíginn sem var virkur lengst af.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Jarðskjálftavirkni hefur verið lítil síðustu tvær vikur við Sundhnúksgígaröðina. Nokkur virkni hefur þó verið í vestanverðu Fagradalsfjalli á 6-8 km dýpi frá því að eldgosi lauk þann 5. september. Einnig hefur verið töluverð virkni í Trölladyngju síðustu daga. Flestir skjálftanna á svæðinu eru litlir en sá stærsti mældist M3.0 að stærð þann 22. september rétt austan við Trölladyngju. Engin aflögun mælist á svæðinu við Trölladyngju.

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem myndaðist í síðasta eldgosi. Kortið er byggt á mælingum Eflu en úrvinnsla gagna frá Náttúrufræðistofnun. Gráleit svæði sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.
Kort sem sýnir jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga frá 6. til 24. september. Á kortinu eru einnig útlínur hraunbreiðunnar sem myndaðist í síðasta eldgosi sýndar. Útlínur hraunsins eru byggðar á mælingum Eflu en úrvinnsla gagna frá Náttúrufræðistofnun.

Byggt á uppfærðri frétt á vef Veðurstofu Íslands þann 24. september kl. 13:15.