Max 1
Max 1

Fréttir

Innleiðing á bláhöttum hafin í Suðurnesjabæ
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 1. október 2024 kl. 12:55

Innleiðing á bláhöttum hafin í Suðurnesjabæ

B-listinn í Suðurnesjabæ hefur óskað eftir að hafin verði vinna við aðgerðaáætlun um lýsingu á gangbrautum við allar nærliggjandi skólabyggingar í sveitarfélaginu. Erindinu var fylgt eftir með bókun og tillögu á síðasta fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar.

Í bókuninni segir m.a.: „Öryggi gangandi vegfarenda, sérstaklega barna, er okkur hjartans mál. Við teljum mikilvægt að sveitarfélagið stígi markviss skref til að bæta lýsingu á gangbrautum við skólabyggingar til að tryggja betri sýnileika og öryggi fyrir bæði gangandi og akandi vegfarendur. Nýjustu tæknilausnir, eins og hreyfiskynjarar og LED-lýsing (blue light) sem kviknar þegar vegfarandi nálgast gangbraut, hafa reynst vel í nágranna sveitarfélögum og stuðla að auknu öryggi, sérstaklega á dimmum árstímum. B listi vill að hafist verði handa við aðgerðaáætlun sem tryggir innleiðingu á slíkri tækni hér í sveitarfélaginu við allar skólabyggingar í Suðurnesjabæ og gerð verði ráð fyrir fjármögnun á slíku í næstu fjárhags- og framkvæmdaáætlun fyrir árið 2025.“

Í tillögu með bókuninni segir m.a. að B-listinn leggi til að hafin verði vinna við gerð aðgerðaáætlunar um uppsetningu tæknibúnaðar(bláhattar) á gangbrautum við allar skólabyggingar í sveitarfélaginu. Aðgerðaáætlunin skal taka mið af bestu mögulegu lausnum til að auka öryggi gangandi vegfarenda, þar á meðal uppsetningu hreyfiskynjara og LED-lýsingar, sem lýsir bæði gangbrautina sjálfa og viðvörunarljós með lýsingu fyrir akandi umferð.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

í bókun framkvæmda- og skipulagsráðs segir að innleiðing á bláhöttum er hafin og hefur verið sett upp á nokkrum stöðum. Ráðið tekur undir mikilvægi þess að haldið sé áfram með verkefnið og aðgerðaráætlun um áframhaldið lögð fyrir ráðið.