Flugger
Flugger

Fréttir

Hljómahöll hentar vel fyrir bókasafn, rokksafn og tónlistarskóla
Fimmtudagur 20. júní 2024 kl. 17:23

Hljómahöll hentar vel fyrir bókasafn, rokksafn og tónlistarskóla

Vinna verkefnahóps um flutning Bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómahöll hefur leitt það í ljós að húsnæði Hljómahallar hentar vel undir þá fjölbreyttu menningarstarfsemi sem hér um ræðir. Í tillögunni felst að allar stofnanirnar geta áfram sinnt þeirra metnaðarfulla starfi og að Hljómahöll getur áfram haldið vel utan um 700–800 manna viðburði og Rokksafnið verður áfram tryggt innan Hljómahallar. Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í morgun var lögð fram tillaga stýrihóps vegna flutnings Bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómahöll ásamt kostnaðaráætlun.

Tillagan, sem var samþykkt á fundinum, inniheldur skiptingu á rýmum Hljómahallar á milli aðila sem þar verða með heimilisfesti. Sömuleiðis er farið yfir þær framkvæmdir sem ráðast þarf í til að allar stofnanir nái að þróa áfram blómlega starfsemi í breyttu starfsumhverfi með metnaðarfulla þjónustu við íbúa að leiðarljósi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Helstu kostnaðarliðir vegna verkefnisins eru hönnun og undirbúningur, stofnbúnaður bókasafns, geymslurými á lóð, flutningur á vörumóttöku, hljóðeinangraður veggur, útdraganleg stúka í Bergi, ný framsetning á rokksýningu, hönnun og uppsetning á framtíðarsýningu Rokksafnsins, bókunarkerfi við rými, loftræsting og hljóðeinangrun í tónlistarskóla, úrbætur á móttöku o.fl.

Í greinargerð með bókun í bæjarráði í morgun segir að flestir kostnaðarliðir og verkefni sem tekin eru saman í tillögunni hafa sannarlega legið fyrir í nokkurn tíma óháð breytingum á Hljómahöll. Mætti segja að þar sé um að ræða eðlilegt viðhald og undirbúning frekar en sértækan kostnað vegna þessa verkefnis. Hvað varðar geymslurými á lóð þá er stærstur hluti þess kostnaðar fjárfesting í lausum einingum sem eflaust má selja eða setja í aðra notkun ef breyting verður á aðstöðumálum Hljómahallar á komandi árum.

Bókun í bæjarráði frá Margréti A. Sanders (D):

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að fyrst verði unnið að stefnumótun um framtíðarfyrirkomulag í húsnæðismálum stofnana og samhliða því önnur aðstöðu- og húsnæðismál sem tengjast menningarstarfsemi í Reykjanesbæ áður farið er í umfangsmiklar og kostnaðarsamar breytingar á Hljómahöll enda segir í tillögu stýrihóps eftirfarandi:

„Hins vegar snýr tillagan að því að á haustmánuðum 2025 verði skipaður verkefnahópur á vegum Reykjanesbæjar sem mun vinna tillögur varðandi framtíðarfyrirkomulag í húsnæðismálum stofnana í Hljómahöll og samhliða því önnur aðstöðu- og húsnæðismál sem tengjast menningarstarfsemi í Reykjanesbæ. Í þeirri vinnu verði sérstaklega horft til þeirrar íbúafjölgunar sem vænst er í samfélaginu og mögulegra viðbragaða við auknu umfangi og þjónustu stofnana“.“

Bókun í bæjarráði ásamt greinargerð frá Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur (B), Bjarna Páli Tryggvasyni (B), Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur (S), Valgerði Björk Pálsdóttur (Y) og Margrét Þórarinsdóttur (U):

„Fulltrúar Framsóknar, Samfylkingar, Beinnar leiðar og Umbótar í bæjarráði samþykkja tillögu stýrihópsins sem varða flutning bókasafnsins í Hljómahöll. Tillögurnar snúa að kostnaðarliðum sem tengjast bæði rekstri og eignfærslu.

Samþykkt er að vísa 14 milljónum í viðauka við fjárhagsáætlun 2024 og 155 milljónum í viðauka við fjárfestingaáætlun 2024. Gert er ráð fyrir geymslurými á lóð Hljómahallar innan þess kostnaðar sem bæjarráð vill að unnið verði meira með t.d. með tilliti til stærðar og því hvort hægt er að nýta einingar sem sveitarfélagið á þegar þær losna á næsta ári. Bæjarráð vísar hluta tillaganna þ.e. kaupum á útdraganlegri stúku í Berg og hönnun og uppsetningu á framtíðarsýningu Rokksafnsins til fjárhagsáætlunarvinnu 2025.

Ferill málsins

Á 1457. fundi bæjarráðs þann 29. febrúar sl. var tekin ákvörðun um að vinna áfram í flutningi Bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómahöll og var sú ákvörðun staðfest með meirihluta atkvæða á 671. fundi bæjarstjórnar þann 5. mars sl. Í kjölfarið var ráðinn verkefnastjóri og skipaður vinnuhópur sviðsstjóra, stjórnenda og bæjarfulltrúa til að vinna að útfærslu á ákvörðuninni og var honum ætlað að skila útfærðum tillögum til bæjarráðs með kostnaðaráætlun.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir ráðgjafi hefur leitt verkefnið en hún hefur viðamikla reynslu í menningarmálum og í málefnum tónlistarskóla og var m.a. í undirbúningshópi fyrir byggingu Menningarhússins Hofs á Akureyri, var framkvæmdastjóri Hofs um árabil og er núverandi stjórnarformaður í Hörpu.

Verkefnastjóri hefur, ásamt pólitískum fulltrúum, haldið stutta kynningu á hugmyndum með starfsmönnum stofnananna. Brugðist var við ábendingum sem fram komu á þessum fundum eftir fremsta megni og hafa tillögurnar sem samþykktar eru hér í dag verið samþykktar samhljóða af öllum í verkefnahópnum.

Tillagan sem hér er samþykkt inniheldur skiptingu á rýmum Hljómahallar á milli aðila sem þar verða með heimilisfesti. Sömuleiðis er farið yfir þær framkvæmdir sem ráðast þarf í til að allar stofnanir nái að þróa áfram blómlega starfsemi í breyttu starfsumhverfi með metnaðarfulla þjónustu við íbúa að leiðarljósi. Til viðbótar við þau atriði sem nefnd eru hér að ofan var horft til skilgreindra lykilþátta árangurs hjá hverri stofnun sem starfandi er í Hljómahöll og fyrir bókasafnið.

Helstu kostnaðarliðir vegna verkefnisins eru hönnun og undirbúningur, stofnbúnaður bókasafns, geymslurými á lóð, flutningur á vörumóttöku, hljóðeinangraður veggur, útdraganleg stúka í Bergi, ný framsetning á rokksýningu, hönnun og uppsetning á framtíðarsýningu Rokksafnsins, bókunarkerfi við rými, loftræsting og hljóðeinangrun í tónlistarskóla, úrbætur á móttöku o.fl.

Flestir kostnaðarliðir og verkefni sem tekin eru saman í tillögunni hafa sannarlega legið fyrir í nokkurn tíma óháð breytingum á Hljómahöll. Mætti segja að þar sé um að ræða eðlilegt viðhald og undirbúning frekar en sértækan kostnað vegna þessa verkefnis. Hvað varðar geymslurými á lóð þá er stærstur hluti þess kostnaðar fjárfesting í lausum einingum sem eflaust má selja eða setja í aðra notkun ef breyting verður á aðstöðumálum Hljómahallar á komandi árum.

Það er ánægjulegt að vinna verkefnahópsins hefur leitt það í ljós að húsnæði Hljómahallar hentar vel undir þá fjölbreyttu menningarstarfsemi sem hér um ræðir. Í tillögunni felst að allar stofnanirnar geta áfram sinnt þeirra metnaðarfulla starfi og að Hljómahöll getur áfram haldið vel utan um 7-800 manna viðburði og Rokksafnið verður áfram tryggt innan Hljómahallar.

Við þökkum Ingibjörgu og verkefnahópnum fyrir þeirra vönduðu vinnu til þessa en það er mat okkar að verkefnið hafi verið vel unnið og hefur hópurinn verið opinn fyrir þeim tækifærum sem geta skapast til enn meiri vaxtar og fyrir þeim samþættingarmöguleikum sem samvinna þeirra stofnana sem hér um ræðir getur falið í sér.

Við sjáum gríðarleg tækifæri og hlökkum til að sjá menningarhúsið Hljómahöll vaxa og blómstra enn meir með fjölbreyttri menningarstarfsemi sem íbúar og notendur þjónustunnar munu njóta góðs af.“

Á fundinum samþykkti bæjarráð með fjórum atkvæðum að vísa 14 milljónum í viðauka við fjárhagsáætlun 2024 og 155 milljónum í viðauka við fjárfestingaáætlun 2024. Gert er ráð fyrir geymslurými á lóð Hljómahallar, innan þess kostnaðar sem bæjarráð vill að unnið verði meira með, t.d. með tilliti til stærðar og því hvort hægt er að nýta einingar sem sveitarfélagið á þegar þær losna á næsta ári. Bæjarráð vísar hluta tillaganna þ.e. kaupum á útdraganlegri stúku í Berg og hönnun og uppsetningu á framtíðarsýningu Rokksafnsins til fjárhagsáætlunarvinnu 2025. Margrét A. Sanders greiðir atkvæði á móti.