Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Fréttir

Heilsulind og baðlón á Garðskaga?
Fimmtudagur 17. nóvember 2022 kl. 09:05

Heilsulind og baðlón á Garðskaga?

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Garðskaga gerir m.a. ráð fyrir heilsulind með baðlóni. Tillagan er nú til auglýslingar og kynningar og verður aðgengileg á vef Suðurnesjabæjar til 23. desember nk. Athugasemdum skal skilað til skrifstofu Suðurnesjabæjar, hvort sem er bréflega eða með tölvupósti.

Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar samþykkti á fundi sínum þann 4. maí 2022 að auglýsa og kynna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Garðskaga samhliða aðalskipulags­auglýsingu. Núverandi deiliskipulagssvæði er vestast á Garðskaga og býr að nálægð við hafið, vitana tvo og byggðasafnið ásamt gamla vitavarðarhúsinu. Tillaga að deiliskipulagi gerir ráð fyrir að svæðið sé stækkað og komið fyrir nýrri aðstöðu sunnan Skagabrautar, þar sem m.a. verði heilsulind með baðlóni og veitingastað og möguleiki fyrir tjaldsvæði. Þessi aðstaða samnýtist svæði norðan Skagabrautar, þar sem byggingarreitur fyrir byggðasafnið er stækkaður ásamt skilgreiningu aksturs- og gönguleiða og möguleika á frekari nýtingu svæðisins til útivistar og fræðslu.

Á vefsíðunni Mermaid.is má sjá tillögu að „Mermaid – Geothermal Seaweed Spa“, sem er metnaðarfullt verkefni sem felst í því að byggja upp hágæða heilsulind við fallega sandfjöru við Garðskaga.