HMS
HMS

Fréttir

Gull og silfur í kílóavís í borholum á Reykjanesi
Unnið við borun á Reykjanesi. VF-mynd: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 14. janúar 2014 kl. 07:23

Gull og silfur í kílóavís í borholum á Reykjanesi

Atlantshafshryggurinn, sem liggur m.a. gegnum Ísland, er fullur af verðmætum málmum að sögn Norðmanna sem hafa verið að rannsaka hverastrýtur á hafsbotni, svokallaða Black smokers, sem skila af sér málmum. Jarðhitakerfið á Reykjanesi er eina rekjarðhitakerfið á Atlantshafshryggnum sem er ofansjávar og hefur dr. Vigdís Harðardóttir jarðefnafræðingur rannsakað málmmyndun í borholulögnum hjá Hitaveitu Suðurnesja. Hún segir heilmikil verðmæti myndast í útfellingum í lögnunum. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu í gær, þar sem rætt var við dr. Vigdísi.

„Í vökvanum á Reykjanesi mælist tíu sinnum meira gull heldur en hingað til hefur mælst á Atlantshafshryggnum. Það finnst mjög mikið magn gulls hér, það mesta sem hefur fundist á hryggnum er í þessum leiðslum á Íslandi,“ segir Vigdís.

Aðspurð um hvað sé í þessum útfellingum í borholunum á Reykjanesi, segir Vigdís:

„Þetta er nær eingöngu málmur, aðallega sínk, svo er kopar, járn og blý og smá ókristallaður kísill og fullt af gulli og silfri. Ég skoðaði útfellingarnar sem mynduðust yfir eitt ár, frá 2006 til 2007, í lögnum hjá þeim og yfir þann tíma mynduðust 900 kg af hreinu sínki, um 300 kg af hreinum kopar, 200 kg af járni, 22 kg af blýi, 5 kg af silfri og tæpt 1 kg af gulli. Þetta voru reyndar háþrýstingsholur svo þrýstingurinn á holutoppunum var gífurlega mikill og málmarnir féllu út þegar þrýstingurinn var felldur. Síðan hefur kerfið hjá þeim aðeins breyst, þrýstingurinn er ekki eins mikill núna á holutoppunum og það hefur minna fallið út þó að það falli enn mikið út í lögnunum.“

Útfellingarnar minnka þvermál lagnanna og því þarf að skipta reglulega um búta hér og þar. Rörbútunum hefur hingað til verið hent en Vigdís stakk upp á að útfellingunum yrði safnað saman og málmarnir unnir seinna meir.

„Magnið sem féll út 2007 hefði verið um níu milljónir ísl. króna að verðmæti ef það hefði verið selt. Það hefði reyndar þurft að koma því í bræðslu svo það kæmi kostnaður á móti. Ef við værum með fullt af borholum til þess að ná jarðhitavökvanum upp gætum við alveg nýtt þetta en eins og er í dag er kannski ekki nægilega margar borholur til þess.“

Vigdís segir hverina á sjávarbotni vera námur framtíðarinnar. Búið sé að rannsaka svörtu hverina í nokkur ár en það taki tugi ára að koma slíkum námum af stað.

„Það er fullt af fyrirtækjum í dag sem eru að byrja að rannsaka þetta, t.d. Norðmenn og Nýsjálendingar en það hefur mælst mikill gullstyrkur í jarðhitalögnum á Nýja-Sjálandi.“

- Gæti slíkar námur verið að finna víðar á Íslandi en á Reykjanesinu?
„Reykjanesið er eini staðurinn í heiminum sem er með svona svarta hveri uppi á landi. Við vitum að þetta er ekki á Hengilsvæðinu eða í Kröflu en það má finna málma í jarðhitakerfum á fáeinum svæðum, eins og í Esjunni, Þormóðsdal og Lóni fyrir austan,“ segir dr. Vigdís Harðardóttir jarðefnafræðingur í samtali við Morgunblaðið í gær.

Bílaverkstæði Þóris
Bílaverkstæði Þóris