Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Grindvíkingar verða 5.000 í fullbyggðu Hlíðarhverfi
Viðstaddir skóflustunguna, auk bæjarstjóra og verktakans Jóns & Margeirs, voru bæjarfulltrúarnir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs, Sigurður Óli Þórleifsson, forseti bæjarstjórnar, Páll Valur Björnsson, Hallfríður Hólmgrímsdóttir og sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs, Atli Geir Júlíusson.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 4. júní 2021 kl. 07:20

Grindvíkingar verða 5.000 í fullbyggðu Hlíðarhverfi

- Framkvæmdir við nýtt hverfi í Grindavík hafnar. Gatnagerð verði lokið í nóvember.

Fyrsta skóflustungan að nýju Hlíðarhverfi Grindavík var tekin í síðustu viku. Við það tækifæri var undirritaður verksamningur milli Grindavíkurbæjar og verktakans Jóns & Margeirs. Það var enginn annar en bæjarstjórinn sjálfur, Fannar Jónasson, sem sá um að stýra gröfunni og taka fyrstu skóflustunguna. Fannar þekkir greinilega vel til gröfuvinnunnar og gróf fyrstu holuna vandræðalaust.

Viðstaddir skóflustunguna auk bæjarstjóra og verktakans Jóns & Margeirs, voru bæjarfulltrúarnir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs, Sigurður Óli Þórleifsson, forseti bæjarstjórnar, Páll Valur Björnsson, Hallfríður Hólmgrímsdóttir og sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs, Atli Geir Júlíusson.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það hefur verið mjög mikil uppbygging hér í Grindavík síðustu árin og svo var komið að því að allar lóðir voru uppurnar hjá okkur og því var orðið tímabært að fara að hanna nýtt hverfi. Þetta eru því tímamót núna að vera að taka fyrstu skóflustunguna að fyrsta áfanga að Hlíðarhverfi.“

– Hvernig er þetta hverfi samsett. Verður þetta fjölbreytt byggð?

„Þetta er fjölbreytt byggð með einbýlishúsalóðum, ásamt parhúsa-, raðhúsa- og fjölbýlishúsalóðum. Á svæðinu öllu verða á bilinu 360 til 404 íbúðaeiningar þegar það er fullbyggt og í þessum fyrsta áfanga eru 76 lóðir og það myndi rúma allt að 1400 manns þegar hverfið verður fullbyggt þegar þar að kemur.“

– Eruð þið byrjaðir að auglýsa lóðirnar?

„Nei, við erum ekki byrjaðir að auglýsa en það er strax orðin eftirspurn og fyrirspurnir um hvenær þetta verður tilbúið. Verktaki á að skila gatnagerðinni fullbúinni í nóvember en fyrir þann tíma verður farið að auglýsa lóðirnar til úthlutunar.“

– Sérðu fyrir þér tímasetningar hvenær þetta verður komið vel á veg eða fullbúið?

„Þessi fyrsti áfangi á að vera tilbúinn í nóvember og það eru um það bil 200 íbúðaeiningar sem þetta gatnakerfi mun rúma og þetta mun endast okkur í þó nokkuð mörg ár. Við verðum 5.000 Grindvíkingar þegar þetta hverfi er fullbyggt.“

– Sérðu fyrir þér eitthvað ártal þegar það gerist?

„Það var gert ráð fyrir því upp úr 2030 að þetta verði fullbyggt en svo verður bara eftirspurnin að leiða það í ljós. Við erum bjartsýn hér og miðað við þá eftirspurn sem verið hefur þá erum við viss um það að það verður mikið um að vera hjá okkur.

Þó að fólki finnsti það sérkennilegt, þá hefur verið mjög líflegur fasteignamarkaður hér í Grindavík síðustu misserin og aðilar sem eru að byggja hér fjölbýlishús eru búnir að selja þau öll fyrirfram og eftirspurnin er þannig að það er skortur á tiltekinni tegund af húsnæði.“

Sem kunnugt er þá stóðu yfir jarðskjálftar í Grindavík í rúmt ár og svo hefur gosið í Fagradalsfjalli á þriðja mánuð. Aðspurður hvort þetta hafi einhver áhrif á fasteignamarkaðinn segir Fannar svo ekki vera.

„Það hefur haft lítil áhrif finnst okkur. Það þýðir ekkert að vera að hugsa um hvað kann að gerast í framtíðinni og á Reykjanesinu verða hugsanlega eldsumbrot næstu tugi og jafnvel einhver hundruð ára segja vísindamenn. Ef menn ætla að bíða það af sér þá myndi ekkert gerast hér á Reykjanesinu. Við erum bara full bjartsýni og erum líka með mjög góðar íbúðahúsalóðir hérna,“ segir Fannar.

Þar sem fyrsta skóflustungan að nýju hverfi var tekin mun rísa nýr leikskóli sem er kominn á framkvæmdaáætlun. Þá er gert ráð fyrir verslun í hverfinu. „Þannig að Grindavík er eftirsóknarverður staður að búa á, eins og verið hefur og öflugur af öllu leyti, þannig að það er enginn bilbugur á okkur hér.“

Bæjaryfirvöld í Grindavík hafa hugað að innviðum samfara stækkun bæjarfélagsins. Nú er unnið að stækkun Hópsskóla sem mun ljúka á næsta ári.

„Þá verðum við vel í stakk búin að mæta fólksfjölgun. Það er ekkert varið í að vera úthluta lóðum án þess að til staðar séu öflugir innviðir. Og við höfum hugað að því í tíma þannig að það á ekki að vera skortur á leikskólaplássi og skólahúsnæði þegar þar að kemur.“