Bilakjarninn
Bilakjarninn

Fréttir

Farsældarráð Suðurnesja í burðarliðnum
Miðvikudagur 11. júní 2025 kl. 10:58

Farsældarráð Suðurnesja í burðarliðnum

Samstarfsvettvangur sveitarfélaga og stofnana til að tryggja farsæld barna

Á fundi velferðarráðs Reykjanesbæjar þann 5. júní 2025 voru kynntar tillögur að skipulagi og samstarfi um nýtt Farsældarráð Suðurnesja. Hjördís Eva Þórðardóttir, verkefnastjóri ráðsins, kynnti málið og drög að samstarfsyfirlýsingu um stofnun ráðsins.

Farsældarráð Suðurnesja verður nýr samráðsvettvangur sveitarfélaga og þjónustuaðila sem starfa í þágu barna á svæðinu. Markmið ráðsins er að styðja við innleiðingu farsældarlaga og tryggja samhæfða þjónustu og stefnumótun í málefnum barna. Ráðið mun starfa samkvæmt lögum nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og fundar að lágmarki tvisvar á ári.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Fjögurra ára aðgerðaáætlun og skýr uppbygging

Í tillögunni er lagt til að ráðinu verði skipt í fjórar megin einingar: stefnumótun, framkvæmd, faglegt mat og dagleg verkefni. Þessi einingaskipting á að tryggja heildræna nálgun og skilvirkt samstarf milli aðila. Ráðið mun leggja fram fjögurra ára aðgerðaáætlun sem verður lögð fyrir sveitarstjórnir og viðeigandi stjórnvöld til samþykktar.

Víðtækt samstarf að baki

Samstarfsyfirlýsingin sem lögð var fram á fundinum nær til Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Grindavíkur, Sveitarfélagsins Voga, framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkur, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Lögreglustjórans á Suðurnesjum og Svæðisstöðvar íþróttahéraða.

Velferðarráð samþykkti drögin að yfirlýsingunni fyrir sitt leyti og vísaði málinu áfram til afgreiðslu bæjarráðs.