Fréttir

Eitrað dekkjakurl á sparkvelli við Akurskóla
Leggja á til að skipt verði um kurl við Akurskóla á næsta ári. VF-mynd/hilmarbragi
Þriðjudagur 10. nóvember 2015 kl. 14:15

Eitrað dekkjakurl á sparkvelli við Akurskóla

- „Börnin eiga alltaf að njóta vafans,“ segir þingmaður.

Á sparkvelli við Akurskóla í Reykjanes er dekkjakurl, af þeirri tegund sem talið er heilsuspillandi. Samkvæmt upplýsingum frá Guðlaugi H. Sigurjónssyni, sviðsstjóra Umhverfissviðs Reykjanesbæjar, verður lagt til að skipt verði um kurl á vellinum strax á næsta ári. Gert er ráð fyrir að kostnaður við verkið verði um ein milljón króna. 
 
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks, lagði fram þingskjal nú í haust um að notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum verði bönnuð. Ekki er ljóst hvenær málið kemst á dagskrá þingsins. Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi er meðal flutningsmanna tillögunnar. Hún segir mikilvægt að Reykjanesbær bregðist skjótt við og fjarlægi dekkjakurlið við Akurskóla. „Mér finnst að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ættu að sýna ábyrgð í verki og skipta eitraða kurlinu út strax við Akurskóla og ekki bíða eftir afgreiðslu ríkisvaldsins. Börnin eiga alltaf að njóta vafans,“ segir hún.
 
Þórarinn Guðnason hjartalæknir bar upp ályktun um dekkjakurl á aðalfundi Læknafélags Íslands árið 2010. Í ályktuninni kemur meðal annars fram að í dekkjakurli séu krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni sem geti verið hættuleg fyrir börn og aðra iðkendur íþrótta á gervigrasvöllum. „Í ýmsum nágrannalöndum okkar er mælt með takmörkun á notkun dekkjakurls vegna þessara efna. Slíkar takmarkanir eru í Þýskalandi og Svíþjóð. Norðmenn hafa rannsakað nokkuð og bent á hættuna á umhverfisáhrifum af kurlinu á nærlendi gervigrasvalla. Það er viðurkennt að í hjólbörðum eru ýmis eiturefni sem meðhöndla verður af varúð. Skýrar reglur eru til staðar um meðhöndlun og förgun ónýtra hjólbarða en þegar búið er að kurla dekkin niður og dreifa þeim á íþróttasvæði barna og unglinga gilda reglurnar ekki. Þó er ljóst að eiturefnin eiga mun greiðari leið út í umhverfið úr dekkjakurlinu en þegar þau eru bundin í heila hjólbarða,“ sagði Þórarinn.
 
Í ályktun Læknafélags Íslands kom einnig fram að í dekkjakurli eru ýmis eiturefni sem vitað er að valda skaða. „Þetta eru efni eins og Benzapyren sem er krabbameinsvaldandi, dietyxhexylftalat og butylbenzylftalatsem valda ófrjósemi, fenol sem safnast fyrir í náttúrunni og hefur langtímaáhrif þar, zink sem í of hárri þéttni er eitrað fyrir lífverur, og blý sem veldur ófrjósemi og skemmdum á taugakerfi en börn eru sérstaklega næm fyrir áhrifum blýs. Sexgilt króm finnst einnig í hjólbörðum en vitað er að það efni veldur bæði ófrjósemi og krabbameini,“ segir í greinargerð með ályktuninni.
 
Fundur Læknafélagsins taldi fulla ástæðu til að hafa sérstakar áhyggjur af leik barna á þessu eitraða undirlagi. „Höfum í huga að börn og unglingar dvelja oft daglangt við leik á íþróttavellinum, þau liggja þá gjarna í gervigrasinu og fá á húðina verulegt magn af svertu og efnum úr hinu eitraða gúmmíkurli. Þessi efni geta því setið á húðinni langan tíma.”
 
Ályktun Læknafélagsins í heild sinni má nálgast hér.
Public deli
Public deli