Fréttir

Ástvaldur, Jana Birta, Heiða atvinnumiðlari og Elsa kraftlyftingakona í Víkurfréttum vikunnar
Þriðjudagur 16. nóvember 2021 kl. 20:29

Ástvaldur, Jana Birta, Heiða atvinnumiðlari og Elsa kraftlyftingakona í Víkurfréttum vikunnar

Það eru heldur betur fjölbreyttar Víkurfréttir í þessari viku þar sem fjölmörg viðtöl fá að njóta sín.

Ástvaldur Ragnar Bjarnason er uppalinn í Sandgerði og hefur aldrei búið annars staðar. Hann er mögulega einn mesti íþróttaáhugamaður sem sögur fara af en þeir sem fylgjast eitthvað með íþróttum á Suðurnesjum hafa efalaust séð til hans á leikjum en Ástvaldur er manna duglegastur að mæta á leiki sinna uppáhaldsliða, Reynis og Keflavíkur, og hann setur það ekki fyrir sig að fylgja sínum liðum langar vegalengdir til að horfa á þau spila. Ástvaldur tók á móti Víkurfréttum á heimili sínu í Sandgerði og spjallaði um lífið og tilveruna.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég fann fyrir einhvers konar sköpunarþörf að koma þessu yfir á eitthvað form sem fleiri myndu skilja. Mín reynsla er sú að það er hægt að tala og skrifa pistla en að sjá eitthvað skilur maður. Í myndinni er hægt að segja svo mikið,“ segir Jana Birta sem er í viðtali í blaði vikunnar.

„Lykillinn er að tala við fólk. Ekki senda tölvupóst,“ segir Aðalheiður Hilmarsdóttir hjá Reykjanesbæ. Aðalheiður, eða Heiða, var ráðin til Reykjanesbæjar í gegnum úrræðið „Hefjum störf“ með það í huga að hún myndi vinna með þetta sama úrræði til að útvega langtímaatvinnulausum vinnu. Hún er því nokkurs konar atvinnumiðlari og á örfáum mánuðum hefur Heiða fengið vinnu fyrir yfir áttatíu einstaklinga sem höfðu verið án vinnu í tvö ár eða lengur. Heiða er í viðtali í blaði vikunnar.

Elsa Pálsdóttir er margfaldur Íslandsmeistari, Evrópumeistari og heimsmeistari í kraftlyftingum. Hún æfir sex daga vikunnar í Lífsstíl í Keflavík og stefnir á mót um komandi helgi. Víkurfréttir hittu Elsu ásamt þjálfara sínum, Kristleifi Andréssyni, í Lífsstíl þar sem þau æfðu fyrir komandi mót. Innslag um Elsu og kraftlyftingarnar er í Suðurnesjamagasíni vikunnar á sjóvarpsstöðinni Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 19:30. Viðtal er einnig í blaði vikunnar.

Við segjum einnig frá nýjum djákna sem hefur verið vígður til starfa í Keflavíkurkirkju, birtum fjölmargar myndir frá árgangamóti í knattspyrnu í Reykjanesbæ, segjum frá nýju hverfi í Grindavík og þróunarreit í Keflavík. Þá eru fastir liðir eins og Lokaorð og aflafréttir á sínum stað. Einnig fróðlegur pistill sem Jón Steinar Sæmundsson tók saman og myndskreytir. Þá er myndarleg íþróttaumfjöllun með viðtölum við íþróttafólk.