Stuðlaberg Pósthússtræti

Aðsent

Verum öll betri - saman!
Sunnudagur 13. september 2020 kl. 07:55

Verum öll betri - saman!

Allir með! er dæmi um gott samstarf. Ég hef alltaf haft trú á að samstarf muni skila margfeldisáhrifum, miklum meiri en ef hver væri í sínu horni með sín flottu en stöku verkefni.

Allir með er dæmi um mjög gott verkefni sem endurspeglar gildi UMFÍ (Ungmennafélags Íslands) um samstarf sem skilar betri einstaklingum, sterkari félögum og bættu samfélagi fyrir alla. Gildin um þátttöku á breiðum grundvelli og að allir taki þátt á eigin forsendum eiga svo sannarlega eftir að koma í ljós í þessu verkefni. Árangurinn verður fólginn í jákvæðum áhrifum á líf fólksins, einstaklinganna og samfélagsins í heild. Allir með! er samfélaginu til góða – og það er ungmennafélagsandinn í hnotskurn.

Reykjanesbær til fyrirmyndar

Í verkefninu er einblínt á alla en horft líka sérstaklega til þeirra sem reynist það meiri áskorun að taka þátt en öðrum. Lögð er sérstök áhersla á börn af erlendum uppruna og börn sem ekki eru nú þegar í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Verkefnið er liður í verkefni Reykjanesbæjar að verða fjölskylduvænn bær. Þar er hugað sérstaklega að vellíðan barna, jákvæðum samskiptum þeirra og sterkri félagsfærni. Reykjanesbær er í þessu verkefni kyndilberi, fyrirmynd annarra sveitarfélaga þar sem áhersla er á þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Niðurstöður rannsókna benda einmitt til þess að þátttaka sé lykillinn að samfélagslegri virkni og leiðinni að betra lífi, jákvæðari samskiptum, sterkari félagsfærni og betra samfélagi.

Í verkefninu munu 6.000 einstaklingar, eða hátt í 30% íbúa Reykjanesbæjar, fá fræðslu, þjálfun og menntun í gegnum verkefnið frá um 60 mismunandi starfsstöðum sem koma að barnastarfi í sveitarfélaginu, sama hvort um sé að ræða danskennara, skátaforingja, barnaverndarstarfsmann eða stuðningsfulltrúa og allt þar á milli. Fáir eru betur til þess fallin að stýra þjálfuninni en ráðgjafafyrirtækið KVAN í samstarfi við ungmenna- og íþróttafélögin í Keflavík og Njarðvík. Fjöldi gríðarlega sterkra þjálfara með frábæran, fjölbreyttan bakgrunn stendur að baki KVAN og er ég fullviss um að KVAN og ungmennafélögin muni starfa frábærlega saman. Það mun skila betra samfélagi – fyrir okkur öll.

Stefnum saman að sama markmiði

Það sem er sérstaklega ánægjulegt við samfélagsverkefnið Allir með! er að sjá frumkvæði starfsmanna vaxa, verkefni sem byrjaði á einum fyrirlestri verða að því stóra verkefni sem nú er að fara af stað.

Það gerist nefnilega oft að boltum er kastað á loft sem fáir grípa. Í Reykjanesbæ var frábærri hugmynd kastað út – en margar hendur á lofti sem gripu hana. Hér eru allir í sama liðinu sem vilja gera gott samfélag enn betra. Ég hlakka til að taka þátt í verkefninu og sjá árangurinn.

Auður Inga Þorsteinsdóttir,
framkvæmdastjóri UMFÍ.