Stuðlaberg Pósthússtræti

Aðsent

Uppbygging í Helguvík
Fimmtudagur 23. apríl 2020 kl. 20:00

Uppbygging í Helguvík

Ríkisstjórnin ásamt Mannvirkjasjóði NATO og Bandaríkjunum eru með í undirbúningi áætlun um uppbyggingu mannvirkja á öryggissvæðinu við Keflavíkurflugvöll á árunum 2021–2023. Sú áætlun sem nú er í smíðum mun koma til efnislegrar meðferðar Alþingis eftir að ríkisstjórn hefur lagt blessun sína yfir hana. Uppbygging hafnarkanta og ferjulags í Helguvík gæti hugsanlega orðið hluti af þessari áætlun.

Við fögnum að sjálfsögðu allri uppbyggingu sem áætlanir eru um að geti átt sér stað hér á svæðinu en rétt er að benda á að á þessu stigi hefur málið hvorki verið samþykkt í ríkisstjórn né heldur hlotið þinglega meðferð og því óljóst hvort af því verði. Því eru fréttir helgarinnar um stórkostlega uppbyggingu í Helguvík orðum auknar og raunar sérkennilegt upphlaup af hálfu þingmanns í atkvæðaleit.

Hins vegar er rétt að ítreka óskir um að Suðurnesin sitji við sama borð og aðrir þegar kemur að framlagi til ríkisstofnana á Suðurnesjum.

Suðurnesin hafa orðið fyrir tvöföldu áfalli, fyrst vegna falls WOW Air og nú af þessari skæðu COVID-farsótt.

Ekkert svæði á landinu verður fyrir eins miklu höggi og Suðurnes og stefnir í að atvinnuleysi fari í vel á þriðja tug prósenta.

Við viljum því brýna ríkisstjórn og þingmenn svæðisins til að ráðast nú þegar í þau verk sem hægt er að fara í, s.s. uppbyggingu hjúkrunarheimilis, tvöföldun Reykjanesbrautar og önnur verk sem hægt er að ráðast í með stuttum fyrirvara og gagnast munu samfélaginu hér suður með sjó.

Guðbrandur Einarsson,
Friðjón Einarsson,
Jóhann Friðrik Friðriksson,
Guðný Birna Guðmundsdóttir,
Díana Hilmarsdóttir,
Styrmir Gauti Fjeldsted.