Þjónandi forysta í verki – leiðtoginn sem setur fólk í fyrsta sæti
Í leiðtogakjöri okkar Sjálfstæðismanna, sem fram fer 31. janúar nk. er ekki kosið um stefnu í hefðbundnum skilningi eða einstök verkefni. Reykjanesbær stendur á tímamótum. Bærinn hefur vaxið hratt, samfélagið hefur tekið miklum breytingum og áskoranir dagsins krefjast skýrra stefnumála, ábyrgðar og sterkrar forystu.
Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá er þeir sem sækjast eftir leiðtoga okkar Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ með svipaða stefnuskrá, sem er óumdeilanleg áherslumál; hvaða lausnir má finna til að leysa atvinnumál á svæði, skipulagsmál bæjarins, menntamál og hvernig við mönnum menntastofnanirnar okkar af fagfólki. Að lokum vil ég nefna íþróttir bæjarins og hvernig við náum að gera Reykjanesbæ aftur að íþróttabæ. Það er verið að kjósa leiðtoga flokksins, einstakling sem kjósendur treysta best til að leiða Sjálfstæðismenn í næstu bæjarstjórnarkosningum.
Kjósendur líta til leiðtoga sem byggir starf sitt á djúpum gildum og raunverulegri umhyggju fyrir kjósendum, íbúum Reykjanesbæjar, sem ég svo sannarlega geri. Sem leiðtogi í mínum störfum, hvort sem um ræðir skólastjórnanda í Holtaskóla og nú Háaleitisskóla, fótboltaþjálfara eða stjórnarmann Knattspyrnusambands Íslands hef ég lagt áherslu á tvennt; að stjórna og starfa eftir mínum gildum og notast við þjónandi forystu. Þjónandi forysta snýst um að spyrja: Hvernig get ég stutt ykkur? í stað þess að spyrja: Hvað getið þið gert fyrir mig? Það á vel við mig. Ég legg ég áherslu á að hlusta, sýna fólki traust og skapa rými þar sem aðrir geta vaxið. Ég trúi því að starf mitt sem leiðtogi sé fyrst og fremst að styðja aðra til árangurs, sem einstaklinga og sem liðsheild. Mín lífsins gildi eru heiðarleiki, ástríða og dugnaður, sem eru ekki aðeins falleg orð á blaði heldur leiðarljós í ákvörðunum, samskiptum og framtíðarsýn. Þessi gildi ráðast af því uppeldi sem ég fékk, því frá unga aldri lærði ég að láta verkin tala, standa við mitt og gefast ekki upp þegar á móti blæs.
Heiðarleiki sem ófrávíkjanlegt gildi
Heiðarleiki er eitt af lykilgildum í minni forystu. Í uppeldi mínu var skýrt að orð skyldu standa og að það væri betra að viðurkenna mistök en að fela þau. Í leiðtogahlutverki birtist það í gagnsæi, skýrum samskiptum og að taka ábyrgð þegar hlutir ganga ekki eins og áætlað var. Undir áhrifum þjónandi forystu tel ég traust vera grunnforsendu árangurs. Án trausts er erfitt að fá fólk með sér í vegferð, sama hversu glæsileg markmiðin eru. Með því að tala skýrt og rækta heiðarleg samskipti má byggja upp menningu þar sem fólk þorir að segja skoðun sína, koma með hugmyndir og læra af mistökum.
Ástríða fyrir fólki og samfélagi
Annað gildið, ástríða, snýr fyrst og fremst að fólki og samfélagi. Ég brenn fyrir því að sjá fólk vaxa, taka þátt og hafa áhrif. Sem þjónandi leiðtogi sé ég mig ekki sem miðpunkt alls, heldur sem hlekk sem hjálpar öðrum að tengjast, finna styrkleika sína og nýta þá í þágu heildarinnar. Ástríðan felst í því að gefast ekki upp, hlusta af einlægni og sjá í hverjum og einum þann möguleika sem kannski er ekki alltaf sýnilegur á yfirborðinu. Ástríðan er minn mótor sem knýr mig áfram til að leggja mig allan fram, skapa jákvætt andrúmsloft og vera fyrirmynd í orði og verki. Með ástríðu næ ég að hvetja aðra til dáða, hrinda hugmyndum í framkvæmd og byggja upp traust, trú og sameiginlega framtíðarsýn.
Dugnaður sem daglegt viðmið
Dugnaður hefur alltaf verið hluti af mínum veruleika. Ég er alinn upp við að vinna sé ekki eitthvað sem maður sinnir aðeins frá níu til fimm, heldur viðhorf til lífsins. Snemma var mér kennt að dugnaður í vinnu er aðdáunarverð og eitthvað sem fólk í samfélaginu tekur eftir og dáist að. Sem gutti í sjávarþorpinu Neskaupstað, á mínum æsku árum, hjálpaði ég móður minni að pakka síld aðeins 6 ára gamall, sem er minning sem kallar fram ánægju og stolt. Að klára hlutina, gera sitt besta og sýna ábyrgð, líka þegar enginn horfir á. Sem leiðtogi er ég tilbúinn að leggja mitt af mörkum, hvar sem þörfin er mest. Ég krefst ekki meira af öðrum en ég er tilbúinn að leggja á mig sjálfur. Ég sem leiðtogi geng á undan sem fyrirmynd í verki, ekki aðeins í orði.
Forystu byggð á rótum og gildum
Það er margt sem hefur mótað mig og minn leiðtogastíl. Uppeldið mitt var skóli í ábyrgð, sanngirni og samkennd, þar sem heimilið, þátttaka í íþróttum og atvinna hafa haft gífurleg áhrif á mig sem leiðtoga. Þar lærði ég að meta vinnusemi, að segja satt þó það sé óþægilegt og að sýna umhyggju í verki, ekki aðeins í orðum. Þessi grunngildi móta mig sem leiðtoga, leiðtogi sem er fyrst og fremst maður meðal manna, sem gleymir ekki hvaðan ræturnar koma. Að byggja upp fólk, efla samfélagið og skilja eftir sig spor sem standa lengur en nokkurt kjörtímabil eða starfsheiti. Það er sú forysta sem ég vil rækta fyrir bæjarbúa Reykjanesbæjar, í dag og til framtíðar.
Unnar Stefán Sigurðsson,
skólastjóri í Háaleitisskóla og frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.




