bygg 1170
bygg 1170

Aðsent

Þarfir beggja íþróttafélaga bæjarins
Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður Golfklúbbs Suðurnesja.
Fimmtudagur 10. október 2019 kl. 10:32

Þarfir beggja íþróttafélaga bæjarins

Tilefni skrifa minna er pistill forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í síðasta tölublaði Víkurfrétta þar sem hann ræðir um aðstöðumál íþróttafélaganna í bænum og hver stefna Reykjanesbæjar sé til að koma til móts við þarfir þeirra.


Ég held að stjórnendur íþróttafélaga hafi fullan skilning á þeirri stöðu sem sveitarfélagið okkar hefur verið að vinna sig upp úr, sýnt þolinmæði og dregið úr væntingum vegna þarfa félaga þeirra um aðstöðu. Íþróttafélögin og -deildirnar sjá nú loks hylla undir breytingar og endurbætur á íþróttaaðstöðu bæjarins.


Reykjanesbær fékk fyrirtækið Capacent í vor til að vinna að rýnivinnu um uppbyggingu íþróttamannvirkja og -svæða þar sem leitað var til félaganna og óskað eftir þeirra framtíðarsýn og hvaða mikilvægu úrbótum þeim fyndist vera mest þörf á á næstu árum.

Þetta hljómaði ágætlega þó vissulega hafi verið farið í svipaða vinnu tveimur árum áður og ég, fyrir hönd míns félags, sendi bænum framtíðarsýn þess og brýnustu áherslur í uppbyggingu aðstöðu.

Skýrsla Capacent var svo tekin fyrir á fundi íþrótta- og tómstundaráðs þann 18. júní síðastliðinn og er margt j+ákvætt að finna í henni. Í skýrslunni er m.a. hugmynd þess efnis að reisa fjölnota íþróttahús við Afreksbraut þar sem „… verður keppnisvöllur fyrir körfuknattleiksdeildir Reykjanesbæjar, framtíðaraðstaða fyrir fimleikadeild og bardagaíþróttir, aðstaða fyrir skotdeild, lyftingar, golfklúbb ásamt félagsaðstöðu fyrir allar deildir [...] Fyrrgreindar tillögur verða unnar í samráði við aðalstjórnir beggja félaga og er íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að boða formenn til fundar.“ (úr fundargerð ÍT ráðs þann 18. júní 2019). Eins og Jóhann Friðrik bendir á í pistli sínum í síðustu viku í Víkurfréttum: „Þær hugmyndir voru kynntar fyrir formönnum Njarðvíkur og Keflavíkur og ræddar í bæjarráði Reykjanesbæjar sem síðan vísaði þeim til bæjarstjóra til úrvinnslu. Í því fólst meðal annars að fundað væri með félögunum og samráð við þau haft.“

Bæði íþróttafélögin í bænum

Mér þykir það spennandi framtíðarsýn að fjölnota íþróttahús rísi við Afreksbraut sem henti sem flestum íþróttagreinum bæjarins, mér finnst skynsamlegt að samnýta mannvirki bæjarins og fá sem mest út úr þeirri fjárfestingu. Hinsvegar finnst mér ótækt að boða formenn Keflavíkur og Njarðvíkur til að funda um framtíðaraðstöðu Golfklúbbs Suðurnesja. Nú heyrir Golfklúbbur Suðurnesja undir hvorugt þessara félaga og mér hefði fundist eðlilegt að boða mig, formann GS, á þann fund þar sem á að ræða æfingaaðstöðu míns félags (að sama skapi finnst mér alger óþarfi að boða mig á fund um gervigraskeppnisvelli fyrir Keflavík og Njarðvík, ef íþrótta- og tómstundaráð var að velta því fyrir sér).

Því er ekki að neita að með þessu er verið að gera lítið úr vægi Golfklúbbs Suðurnesja, og fleiri íþróttafélaga, sem hluta af íþróttalífi bæjarins. Það vill oft gleymast að íþróttafélög í Reykjanesbæ eru eru talsvert fleiri en tvö – aðildarfélög Íþróttabandalags Reykjanesbæjar eru ellefu talsins.

Jóhann Páll Kristbjörnsson,
formaður Golfklúbbs Suðurnesja