Aðsent

Skip sem landi ná
Laugardagur 12. júní 2021 kl. 08:45

Skip sem landi ná

Mennt er máttur og menningin auðgar andann og því þurfa mennta- og menningarstofnanir okkar að vera lifandi og kröftugar. Undirrituð hefur átt sæti í allsherjar- og menntamálanefnd síðustu misseri og fengið að fylgja eftir nokkrum málum  í gegnum nefndina sem menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, hefur lagt fram. Þar eru mál sem þjóna að sjálfsögðu landinu öllu en líka nokkur verkefni sem snúa beint að Suðurnesjum og ætla ég að rekja nokkur þeirra hér.

Árangursríkar aðgerðir

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þegar Wow varð gjaldþrota vorið 2019, ákvað ríkisstjórnin að setja 45 milljónir í fyrri hluta aðgerðaráætlunar til að efla menntaúrræði á Suðurnesjum sem andsvar við miklu atvinnuleysi. Aðgerðaáætlunin var unnin í nánu samráði við fræðsluaðila á svæðinu og Vinnumálastofnun. Í áætluninni var lögð áhersla á íþrótta- og æskulýðsstarf sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka, raunfærnimat með náms- og starfsráðgjöf og styttri námslínur og námskeið. Það er óumdeilt að það skipti miklu máli fyrir svæðið að menntamálaráðherra brást strax við kalli íbúa á þessum erfiða tíma.

Menntanetið og Keilir

Atvinnuleysi á Suðurnesjum hélt áfram að vaxa vegna Covid-19. Þá ákvað ríkisstjórnin, í samráði við sveitarfélög, atvinnurekendur, menntastofnanir og fleiri, að koma á fót menntaneti til að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur. Þrjú hundruð milljónum var ráðstafað úr ríkissjóði til að kaupa þjónustu hjá menntanetinu sem hluti af átakinu Nám er tækifæri. Þá var ákveðið að styrkja námsleiðir Keilis, gegn því að sveitarfélögin á Suðurnesjum kæmu einnig inn með fjármuni. Þannig var hægt að styrkja rekstrarstöðu Keilis.

Niðurfelling námslána

Meðal þeirra framfaramála sem Alþingi hefur samþykkt frá menntamálaráðherra á kjörtímabilinu eru lög um lýðskóla, lög um Menntasjóð sem fela m.a. í sér 30% niðurfellingu á námslánum, styrki til barnafólks og afnám ábyrgðamannakerfisins, menntastefna, kvikmyndastefna, lög um leyfisbréf kennara, hvatar til fjölgunar nema í kennaranámi og nýlega samþykkti Alþingi lög um breytingum á aðgengi í háskóla. Nú getur fólk sem hefur lokið 3. hæfnisstigi í starfs- eða tækninámi fengið aðgang í háskólanám. Nú gildir ekki einungis stúdentspróf, eins og áður. Ég tel að þessi breyting svari kalli atvinnulífsins um fjölbreyttari hæfni á vinnumarkaði, sér í lagi hæfni á tæknisviði og starfsmenntun.

Fiskur og flug

Fisktækniskóli Íslands er staðsettur í Grindavík en þjónar öllu landinu og er afar mikilvæg menntastofnun. Fyrirhuguð er að gera samning við skólann um fisktækninám og annað nám tengt því. Áætlað er að samningurinn muni taka gildi 1. ágúst 2021, verði til fimm ára og að árlegt framlag ríkisins verði 71 milljón króna.

Stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja er einnig verkefni sem sett hefur verið af stað á þessu kjörtímabili, sem ég er mjög stolt af. Reist verður 300 fermetra viðbyggingu sem mun hýsa félagsrými nemenda. Þá mun ríkissjóður leggja til 80 milljónir á ári næstu þrjú árin til Flugakademíu Keilis til stuðnings flugnáms í landinu.

Forsenda velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf. Sterkar menntastofnanir um land allt eru algjört lykilatriði í því samhengi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.