Flugger
Flugger

Aðsent

Sjálfbært samfélag á Ásbrú
Föstudagur 3. nóvember 2023 kl. 06:00

Sjálfbært samfélag á Ásbrú

Til þess að hverfi í bæjum og borgum geti talist sjálfbær er ekki nóg að huga að umhverfislausnum í skipulagi. Sjálfbær hverfi eru hverfi sem bjóða upp á þá þjónustu sem þarf til þess að íbúar geti sinnt erindum sínum og áhugamálum.

Á Ásbrú er grunnþjónusta til staðar fyrir þá íbúa sem þar búa. Þar eru skólar, leikskólar og ágætt aðgengi að almenningssamgöngum. Í hverfinu er aftur á móti ekki að finna álíka þjónustustig og á sambærilegum svæðum á Íslandi hvað varðar verslun og þjónustu. Einnig eru útivistarsvæði og samkomustaðir fólks ekki sambærileg við önnur 4.000 íbúa samfélög. Bæir í svipuðum stærðarflokki hvað íbúa varðar eru meðal annars Borgarbyggð, Ísafjarðarbær og Seltjarnarnes.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ástæðurnar geta verið af ýmsum toga, sögulegar, skipulagslegar eða af öðrum meiði en nú glittir í uppfærslur sem munu gera mikið fyrir hverfið. Framundan er opnun matvöruverslunar og veitingastaða, uppi eru hugmyndir um húsnæði fyrir íþróttaiðkun ýmiss konar og á undanförnum árum hefur verið hlúð að leiksvæðum fyrir börn, meðal annars með opnun ærslabelgjar og hjólabrautar á framtíðarskólalóð hverfisins.

Reykjanesbær mun byggja nýjan skóla við Grænásbraut á komandi árum, ýmis skógræktarverkefni eru byrjuð og nýtt rammaskipulag er í kynningu en það mun leggja línurnar fyrir framtíð hverfisins. Ásbrú hefur alla burði til þess að verða þétt og aðlaðandi hverfi með góðu aðgengi að þjónustu eins og hverfi af þessari stærðargráðu ætti að bera.

Tækifærin til sjálfbærrar þróunar hverfis eru óvíða eins augljós og á Ásbrú. Þeir innviðir sem skildir voru eftir af Bandaríkjaher bjóða upp á þéttingu og eflingu byggðarinnar án hefðbundins tilkostnaðar. Við brotthvarf varnarliðsins urðu ekki eingöngu eftir húsbyggingar heldur einnig gatnakerfi, veitur, gangstéttar og annað sem mun nýtast við mótun hverfisins til framtíðar.

Samkvæmt rammaskipulagi munu búa um það bil 15.000 íbúar á Ásbrú árið 2050. Ef við setjum þá tölu í samhengi við önnur svæði þá er það svipaður fjöldi og býr í Mosfellsbæ, aðeins færri en í Garðabæ og álíka og í Hlíðunum í Reykjavík. Ásbrú mun kalla á sambærilega þjónustu og þessi samfélög. Reykjanesbær mun byggja skóla og íþróttahús og einkaaðiliar munu sjá tækifærin við að þjónusta íbúa hverfisins sem munu vonandi geta sótt sér þjónustu að mestu leyti gangandi eða á annan umhverfisvænan hátt.

Tækifærin munu svo sannarlega raungerast á Ásbrú með fjölgun íbúa og aukinni athygli bæjaryfirvalda og uppbyggingaraðila. Ásbrú er spennandi hverfi í útjaðri eins stærsta sveitarfélags landsins, með útsýni til allra átta, stutt til útlanda og örstutt til Reykjavíkur.

Pálmi Freyr Randversson,
framkvæmdastjóri Kadeco.