Aðsent

Reykjanesbær fokkar í rokkinu
Baldur Guðmundsson
Föstudagur 16. desember 2022 kl. 07:00

Reykjanesbær fokkar í rokkinu

Það setti að mér mikil ónot þegar ég las fundargerð bæjarráðs frá 24. nóvember síðastliðinum þar sem lagt er til að Bókasafn Reykjanesbæjar verði flutt í aðstöðu Rokksafnsins og því fundinn annan staður. Tillagan er liður í því að Hljómahöll verði menningarhús Reykjanesbæjar til framtíðar. Lesendum og bæjarráði til upplýsingar þá er Hljómahöllin veglegt menningarhús nú þegar sem sómi er að. Þegar lagt var í þá vegferð að koma Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í framtíðarhúsnæði og byggja við Stapann þá fléttaðist inn sú hugmynd að koma þar upp rokksafni. Hugmyndin að safninu byggði á þeim litla safnvísi sem komið var upp á Glóðinni seint á síðustu öld og fylgdi faðir minn, Rúnar Júlíusson, henni eftir allt frá því að Glóðinni var lokað. Samlegðin af þessum þremur verkefnum þótti þó nokkur og var tekin skóflustunga að Hljómahöllinni í janúar 2008. Draumurinn varð þó ekki að veruleika fyrr en í apríl 2014. Það sýndi sig fljótt að menningarhúsið hleypti miklu lífi í samfélagið og hafa fjölmargir gestir lagt leið sína á safnið og sótt ótal viðburði í Hljómahöllina. Svo ekki sé minnst á tónlistarskólinn sem er með þeim glæsilegri á landinu og væri efni í aðra grein.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eins og ljóst er þá er ég ekki alveg hlutlaus en það er svo margt sem er rangt við þá hugmynd að færa bókasafnið í Hljómahöllina. Húsið var teiknað með hliðsjón af því hlutverki sem það átti að gegna. Það er að vera heimili tónlistarinnar. Á sama stað hefðum við grasrótarstarfið í skólanum, söguna til að minna okkur á og viðhalda arfinum og einnig að vera lifandi vettvangur fyrir fjölbreytt samkomuhald. Það að bæta bókasafni við gengur illa upp fyrir það fyrsta vegna þess að reglulega eru samkomur sem hafa í för með sér ónæði og hávaða í mismiklum mæli. Tónlistarskólinn gengur síðan út á að blásið sé í hljóðfæri eða þau strokin og gefa frá sér hljóð sem kemur kannski einhverjum á óvart. Meginreglan hingað til hefur verið að hæfilegt næði sé á bókasöfnum þó mikið hafi lifnað yfir þeim í seinni tíð. Enda finnst mér alveg ómögulegt að vera etja þessum tveimur stórgóðu menningarstofnunum saman í samkeppni um húsnæði. Það er eitthvað svo rangt – en framtíð bókasafnsins og aðstaða þess er efni í enn aðra grein.

Ég hef tekið á móti mörgum hópum á Rokksafninu og hafa allir tjáð ánægju sína yfir safninu og húsinu öllu og þykir mikið til koma. Margir þessara hópa hafa gagngert heimsótt bæinn okkar til að kíkja á safnið enda var hugmyndin líka að draga til okkar gesti með þessari aðstöðu. Nær undantekningalaust hafa hóparnir dvalið lengur og fengið sér að borða á veitingastöðum bæjarins sem hefur fjölgað og bætt sína þjónustu til muna síðustu árin. Hróður safnsins hefur borist víða því á degi íslenskrar tónlistar fékk Rokksafnið sérstaka viðurkenningu, Gluggann, fyrir „að halda úti heimili íslenskrar tónlistar í Reykjanesbæ með hugmyndaríku safni og fjölbreyttri tónlistardagskrá undanfarin ár“. Bókasafnið hefur ekki sama aðdráttarafl fyrir gesti þó mér finnist það frábært og veiti okkur bæjarbúum fyrirmyndarþjónustu.

Það sem vekur síðan mikla furðu er að þeir sem leggja fram þessa tillögu hafa ekkert verið að heyra í bæjarbúum vegna þessa en töluðu hvað hæst um íbúasamráð og íbúakosningar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Nú er hvorki talað við kóng né prest, jafnvel þó jarða eigi Rokksafnið. Fullyrt er að safnið hafi ekkert aðdráttarafl og síðustu ár nefnd sem dæmi. Þá væri gott að skoða við hvaða aðstæður safnastarf fór fram í heimsfaraldrinum. Í mínu starfi er ég í miklum tengslum við öll söfn á landinu og ekkert þeirra hefur farið varhluta af veirunni. Það tekur tíma að koma safni á kortið og Rokksafnið okkar er rétt búið að slíta barnsskónum. Er aðeins átta ára og var síðustu tvö ár á sjúkrahúsi.

Nefnt hefur verið að safnið sé ekki lögbundið hlutverk og er það rétt en safnastarfið er í fullum samhljómi við menningarstefnu hins opinbera sem og menningarstefnu Reykjanesbæjar auk nýrrar tónlistarstefnu sem nú liggur fyrir Alþingi. Í þessum stefnum er rík áhersla lögð á að mennta þjóðina í listum og menningu og auka aðgengi almennings að menningararfinum. Og þar sem við á Suðurnesjum lögðum mikið af mörkum í tónlistararfinn þá skulum við ekki slá hljóm Rokksafnsins úr Hljómahöllinni.

Það eina sem ég bið um áður en lengra er haldið er að kíkja aðeins út úr bergmálshellinum, taka púlsinn á bæjarbúum og tengdum aðilum, skoða málið frá ýmsum hliðum og setja Rokksafnið ekki í einhverja óvissu.