Flugger
Flugger

Aðsent

Ragnar Eðvaldsson, minning
Föstudagur 28. júní 2024 kl. 08:46

Ragnar Eðvaldsson, minning

Maður veit ekki hvar maður á að byrja en það er einhversstaðar upp á fjöllum. Kannske í leit upp í Bláfjöllum ásamt Árna Óla eða í brjáluðu veðri austur í öræfasveit um páska en það skiptir ekki máli því að minningarnar eru þarna sama hvert sem litið er.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við Raggi kynntumst í gegnum sameiginleg áhugamál, bíla og fjöll. Við rákum einnig sameiginlega sendibíl um tíma, skreyttan af Sævari Helga merktan Ragnarsbakaríi á annari hlið og Garðarshólma á hinni. Báðir fórum snemma út í fyrirtækjarekstur innblásnir af bjartsýni og orku hins unga manns og báðir máttum við reyna erfiða glímu við umhverfi hafta og þröngsýni. Ragnarsbakarí varð þjóðþekkt fyrir gæðaframleiðslu og nýjungar í markaðssetningu. Ragnar og Ásdís stýrðu því af glæsibrag til fjölda ára. En það fer ekki allt eins og maður vildi helst og þá reynir á gæði manneskjunnar. Ragnar var gæddur jákvæðni og bjartsýni hins duglega manns sem bognaði en brotnaði ekki við mótlæti svo að hann og Ásdís fundu sinn sess á nýjan leik. Er ég ferðaðist með Hringförunum á Víponinum mínum um fjöll og firnindi eignaðist Raggi frambyggðan rússajeppa sem hann nýtti vel til fjallaferða með Gunna Matt og Kalla Sævar og þar lágu leiðir okkar snemma saman. Svo datt okkur í hug að stofna björgunarsveit árið 1968 sem lifir enn. Við vorum saman í lúðra og danshljómsveit  en í seinni tíð höfum við aðallega leikið á gítar í kvöldvökum til fjalla. Þegar Raggi eignaðist Chevy Suburban fékk ég einn slíkan, en síðan fékk Raggi einn flunkunýjan og það var á þeim bílum sem við fórum  í ökuferð til Grunnavíkur í Jökulfjörðum,  næst voru það“Travelall“ scout jeppar og svo komu Fordarnir okkar. Í fyrstu vetraferðinni var Raggabíll í spotta allan túrinn sem var óásættanlegt, punktur. Bíllinn tekinn í nefið og ekki hætt fyrr en kominn var flottasti fjallabíll þeirra tíma með öllu tilheyrandi. Ekki má gleyma að í millitíðinni, svona inn á milli bíla eignuðumst við Raggi ásamt nokkrum félögum okkar tvo snjóbíla til vetrar og jöklaferða meðan þeirra naut við.  Leiðir okkar lágu einnig saman er hann ásamt Karli Sævari keyptu húsgagnaverslun mína í Keflavík. Ég minnist þorrablótanna árum saman í Básum eða Hólaskógi og 1313 ferðahópsins sem starfaði 40 ár þar sem Ragnar og Ásdís voru fremst í flokki. Mér finnst erfitt að rita kveðjuorð um mann sem ég hef átt svona langa og ánægjulega samleið með. Ég er þakklátur fyrir þau áhrif sem hann og félagar hans þeir Gunni Matt og Kalli í street höfðu á mig um ferðalög til fjalla en þau vara enn. Ég er einnig þakklátur honum og Ásdísi fyrir að hafa reynst mér, Huldu og Öllu svona góðir vinir í gegnum lífið og tekið þátt í gleði okkar og sorg. Ég ætla einnig að leyfa mér að þakka Ragga fyrir hönd eldri félaga í Björgunarsveitinni Stakki fyrir starfið og gleðina sem við upplifðum með honum og svo eru það við gamlingjarnir í 1313 ferðahópnum, hvar hefðum við verið án þín Raggi?

Við Alla sendum Ásdísi og börnum innilegar samúðarkveðjur.


Garðar Sigurðsson og Aðalheiður Jónsdóttir.