Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Minningarorð: Anna Lísa Ásgeirsdóttir
Föstudagur 27. nóvember 2020 kl. 07:29

Minningarorð: Anna Lísa Ásgeirsdóttir

Anna Lísa Ásgeirsdóttir fæddist á Akureyri 12. mars 1941. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 3. nóvember 2020.

Foreldrar hennar voru hjónin Ásgeir Matthíasson (f. 3/7 1891 – d. 28/10 1955) og Anna Luise Matthíasson (f. 11/10 1913 – d. 28/12 1986).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eftirlifandi systir Önnu Lísu er Annetta (f. 23/12 1937).

Anna Lísa bjó fyrstu árin sín á Akureyri og þaðan flutti fjölskyldan til Húsavíkur þar sem Anna Lísa átti góðar minningar, um 1960 flutti hún síðan til Keflavíkur.

Anna Lísa giftist þann 1.október 1977, Walter Gunnlaugssyni (f. 3/8 1935 – d. 3/10 2017).

Dóttir Önnu Lísu er Anna Birgitta Nicholson (f. 19/6 1961), hún er gift Birni Línberg Jónssyni og eiga þau fjögur börn og sex barnabörn.

Stjúpbörn eru María Guðrún, Erla, Vilhjálmur og Hildur.

----

Önnu Lísu Ásgeirsdóttur (Sússý) kynntist ég þegar hún rak snyrtistofu við Hafnargötuna í Keflavík. Hún vissi af því að ég hafi lært snyrtifræði og hana vantaði tímabundna afleysingu. Það var mikill lærdómur að vinna fyrir Önnu Lísu. Já, hún var af þýskum ættum og þá þurfti klukkan að vera rétt stillt fyrir hvern viðskiptavin og þá þýddi ekkert að vera að dúllast of lengi.

Upp frá þessu urðum við miklar vinkonur og það skipti aldrei máli aldursmunurinn á okkur. Við fórum saman í innkaupaferðir til London, Amsterdam og ég hjálpaði til með að opna verslun í Portúgal. Ekkert stöðvaði hana og hennar einstöku framkvæmdargleði og skipulag skein ávallt í gegn. Hún gekk í hlutina og kynnti sér aðstæður á hverjum stað, lærði tungumálið og kom sér alltaf í samband við réttu aðilana og vann með þeim. Allar ferðirnar voru mér einstakar í upplifun og minningarnar um hversu mikil heimskona hún var, bóhem og naut lífsins.

Anna Lísa var gift honum Walter Gunnlaugssyni og var hann gull af manni. Þau voru mjög samrýnd og hann studdi hana í öllu sem hún tók sér fyrir hendur.

Eftir að Anna Lísa hætti að vinna og Walter orðinn veikur, þá vorum við í sambandi nærri því daglega þar sem hún varð fljót að tileinka sér tölvutæknina og við skiptumst á pósti alla daga. Við áttum okkar gælunöfn sem við notuðum alla tíð um hvor aðra til loka dags, þær Sússý og Stússý.

Já, við brölluðum margt og fórum margar ferðirnar til Reykjavíkur. Stundum fengum við okkur hádegismat á Borginni en Sússý var mjög skýr um að við skyldum sko ekki að fara á plaststólanna, heldur færum við þangað sem væri upp á dúkað. Ég skildi alltaf passa upp á það.

Anna Lísa gekk inn í Oddellowregluna 1986 og starfaði þar mikið, meðal annars í félagi sem vann við að stofna fyrstu Rebekkustúkuna hér í Reykjanesbæ. Hún kynnti mig fyrir Oddfellowreglunni og hefur það verið mér mikil gæfa. Ég mun ævinlega vera henni þakklát fyrir það.

Að eiga vin er lífsins mesta mildi

og margur fær að skilja kraftinn þann

því það sem okkar tilvist gefur gildi

er gæska sú sem vekur kærleikann.

Ef kuldi fer um vitund vina þinna

skal vonar glætan þín þeim gef yl

og þegar vinir skrekk og skaða finna

þá skal þitt hjarta einnig kenna til.

Að njóta allra mildi með þeim snjöllu

og merkilegum vinum sem þú átt

það líkist því að eiga nóg af öll

og efast síst um hjartans heita mátt.

(Höf. KH)

Sendi Önnu Birgittu, Hildi, Erlu, Maju, Villa og fjölskyldum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Elsku Sússý mín, megi sá sem öllu ræður umvefja sálu þína og gefi þér kærleik og frið, þar til við hittumst næst.

Elsa Skúladóttir

---

Nú er komið að kveðjustund elsku vinkona. Ég hef þekkt þig alla tíð. Þið Anna Birgitta voruð mikið með okkur fjölskyldunni þegar ég var að alast upp og á ég margar góðar og skemmtilegar minningar frá þeim tíma. Ég kallaði þig Lísta því ég gat ekki sagt Lísetta eins og foreldrar mínir kölluðu þig. Við höfum umgengist hvor aðra mikið síðustu ár. Þú sagðir öllum sem við hittum að þú hafir keyrt mig um í hvítum barnavagni þegar ég var lítil, með glugga aftan á. Á  brúðkaupsdaginn okkar Gunna keyrðir þú okkur í kirkjuna á fínu Cortínunni þinni. Ég man svo vel hversu hamingjusöm þú varst þegar þú kynntist honum Wolla þínum. Öllum líkaði vel við Wolla enda yndislegur maður með hjarta úr gulli. Þegar Wolli var á Hval 8, fór ég stundum með þér upp í Hvalfjörð til að hitta hann. Það var gaman að heyra sögur af ferðalögum ykkar enda af miklu að taka. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til ykkar, enda höfðingjar heim að sækja. Þegar veikindin bönkuðu upp á hjá Wolla, stóðst þú þig eins og hetja. Þú keyrðir honum til Reykjavíkur í hvaða veðri sem var og hugsaðir um hann fram á síðasta dag.

Þú varst alltaf svo fín og vel til höfð, bleiki  liturinn var í uppáhaldi hjá þér, hvort sem það var í klæðaburði, förðun eða bara hlutir sem prýddu heimilið þitt. Þú varst mikil athafnakona, rakst snyrtistofu, snyrtivöruverslun og svo síðar sjoppu í Keflavík. Ekki má þá gleyma þegar þú opnaðir búð í Portúgal. Þú lést ekkert stöðva þig, lærðir tungumálið sem lék við þér. Oddfellowhreyfingin var þér afar mikilvæg. Þú misstir svo mikið þegar Wolli féll frá, þá fór að halla undan fæti og veikindi þín bönkuðu hratt upp á. Allt í einu varst þú orðin svo hjálparvana. Við höfum getað talað mikið saman og treyst hvor annari þrátt fyrir aldursmuninn. Þér var mjög annt um fjölskyldu mína og fylgdist vel með og spurðir frétta af þeim næstum daglega og átti Nína stað í hjarta þínu. Þú komst oft í heimsókn til okkar Gunna á meðan heilsan leyfði og oftast komst þú með eitthvað gott úr bakaríinu. Ég á eftir að sakna þess að sjá ekki nafnið þitt á símanum mínum þegar þú varst að hringja í mig og röddina þína: „Hvað segir þú krúttmúsin mín?“ Þegar við Elsa sátum hjá þér á spítalanum daginn sem þú kvaddir, sagði hún mér svo skemmtilega ferðasögu af ykkur vinkonunum. Þið voruð í Amsterdam og höfðuð keypt ykkur fallegar kápur. Þegar komið var á Schipol-flugvöll þá vildir þú kaupa fullt af túlipönum í stíl við kápurnar ykkar. Þetta var þér líkt.

Elsku Anna Lísa mín, nú ertu komin á stað þar sem öllum líður vel og þjáningar þínar að baki. Þú ert komin til Wolla þíns í Sumarlandið og þið sameinuð á ný. Takk fyrir samveruna og sjáumst seinna.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

(Pétur Þórarinsson)

Elsku Anna Birgitta og fjölskylda, ég og fjölskyldan mín biðjum Guð að styrkja ykkur öll á þessum erfiðu tímum.

Sigurveig (Siddý).