Heklan vetrarfundur
Heklan vetrarfundur

Aðsent

Lokun hár- og snyrtistofa um allt land í annað skipti
Gauja og Lilja, eigendur Hárfaktorý, og Gerða Arndal, snyrtifræðingur og eigandi snyrtistofu Gerðu Arndal
Föstudagur 6. nóvember 2020 kl. 07:03

Lokun hár- og snyrtistofa um allt land í annað skipti

Aldrei hefði okkur dottið það í hug þegar við opnuðum Hárfaktorý árið 2012 að heimsfaraldur myndi skella öllu í lás hjá okkur. Þetta eru búnir að vera mjög skrítnir tímar, sérstaklega síðustu vikur. Við hér utan höfuðborgarsvæðisins máttum vera með opið en ekki stofurnar í bænum. Enda stoppaði síminn ekki ... við fengum alveg að heyra það, sagt að við værum að mismuna fólki, að þetta mætti ekki og svo kom það alveg fyrir að fólk laug sem eru mjög leiðinlegar aðstæður. Fólk var að nýta sér það að vinna t.d. hér suðurfrá en býr í bænum – en við spurðum alla sem voru ekki skráðir í bókunarkerfi hjá okkur hvort þeir byggju í bænum. Því við ákváðum strax að sýna samhug með stofunum í bænum. Við viljum líka koma fram þakklæti til allra sem hafa sýnt tillitssemi og beðið þolinmóð eftir nýjum tímum. Sérstaklega eftir að við opnuðum í fyrstu bylgjunni og vonum að það verði eins núna. Það vilja flestir komast að á fyrsta opnunardaginn en við höfum bara tvær hendur og komum því miður ekki öllum að á þeim degi.

Auðvitað er erfitt að loka, sérstaklega á þessum tíma árs þar sem margir af kúnnum hjá okkur, bæði í klippingu/litun og í snyrtingu hjá Gerðu, eru mjög skipulagðir og löngu búnir að plana tímana sína fram að jólum ... en svona er þetta bara og í staðinn kemur bara frekar löng en pottþétt mjög skemmtileg jólatörn hjá okkur.

Kannski upplagt líka að segja frá því að nýr hárgreiðslusveinn er að byrja hjá okkur einmitt núna en það er hún Vala. Valgerður sem vann lengi á Hárgreiðslustofu Reykjavíkur en hún og fjölskyldan hennar voru að flytja í Reykjanesbæ og vonum við að allir taki vel á móti henni og skelli sér á tíma í klippingu eða klippingu og lit hjá henni þegar við opnum aftur.

Þetta ástand kennir okkur líka ýmislegt, t.d. að vinnan er ekki sjálfsagður hlutur og auðvitað að heilsan er númer eitt, tvö og þrjú. Án hennar er maður ekkert. Við erum þakklátar fyrir að geta unnið og ef smá hárrót eða loðnir leggir eru mestu áhyggjurnar sem við höfum þá erum við ótrúlega heppin.

Vonandi sjáum við fram á bjartari tíma núna í lok árs og að allir geti notið aðventunnar og jólanna með sínu nánasta fólki. Við þurfum bara öll að standa saman í þessu núna næstu tvær, þrjár vikurnar svo það sé mögulegt.

Baráttukveðjur til ykkar allra. Sendum rafrænt knús og kærleika á ykkur öll og hlökkum til að sjá ykkur sem flest í jólatörninni á Hárfaktorý.

Lilja, Gauja, Jóhanna, Fanney og Vala, klipparar, og Gerða Arndal, snyrtifræðingur.