Stuðlaberg Pósthússtræti

Aðsent

Lokum Brautinni
Myndin sýnir verðmun hjá Atlantsolíu í Hafnarfirði og Reykjanesbæ.
Mánudagur 15. mars 2021 kl. 10:54

Lokum Brautinni

Á undanförnum hafa komið upp nokkur mál þar sem okkur á Suðurnesjum hefur þótt að á okkur hafi verið hallað. Þá höfum við skammast út í þingmenn okkar, ekki þótt þau vinna að hagsmunum okkar sem skyldi, jafnvel þó ljóst væri að oft væri erfitt um vik. Þegar að skömmum okkar á allt og alla hefur svo lokið höfum við gripið til stóru fallbyssunnar. Við lokum brautinni. Sú hótun hefur byggt á því að þar með lokuðum við flugvellinum um leið og áherslur okkar myndu ná eyrum ráðamanna létum við af verða.

Í síðustu viku sá ég á síðum Víkurfrétta að hafin væri undirskriftasöfnun sem gæti haft áhrif á fjárhag velflestra heimila á Suðurnesjum. Svo mikil að hvert meðalheimili á Suðunesjum gæti sparað jafnvirði fasteignagjalda lítillar íbúðar á ári, sé miðað við þokkalega meðalkeyrslu. Það er því til nokkurs að vinna.

Forsprakka undirskriftarsöfnunarinnar Hauki Hilmarssyni finnst eins og mörgum öðrum að undarlegt sé að sú frjálsa samkeppni sem á sér stað á Reykjavíkursvæðinu og á Akureyri skuli ekki hafa náð til Suðurnesjanna. Í dag er rúmlega 40 króna munur á á lægsta verði bensíns í Reykjavík og á Suðurnesjum. Stór hluti íbúa hér velja að fylla bensíntanka bíla sinna á svæðinu í kringum Costco þar sem verðið er lægst. Þessu vill Haukur breyta. Hann vill að við eigum val og að sú frjálsa samkeppni sem olíufélögin stunda í Reykjavík og Akureyri nái einnig til Suðunesjanna. En til þess að ná því fram þarf hann hjálp. Hjálp okkar kynnu að njóta ávinningsins næði hann eyrum olíufélaganna sem hingað til hafa nýtt sér heyrnaskjól til þess að komast hjá að hlusta. Á okkar kostnað.

Nú er ekki í boði að hóta því að verði ekki á okkur hlutstað verði brautinni lokað. Til þess eru engar forsendur sökum aðstæðna, auk þess sem það er ólöglegt. Lítil sem enginn flugumferð er og ferðamenn fáir sem fara um völlinn, auk þess sem aldrei hefur verið mikilvægara að halda brautinni opinni sökum náttúruváar á Reykjanesi. Sé það þannig að okkur þyki við órétti beitt af olíufélögunum og viljum njóta sömu kjara og íbúar Reykjavíkur og Akureyrar þegar kemur að verðlagningu bensíns og olíu hlýtur leiðin að vera að fá því breytt. Okkar besta framlag nú hlýtur því að vera að skrifa undir undirskriftarlista þann sem afhenda á forsvarsmönnum olíufélaganna allra. Skrifum undir

Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson íbúi í Reykjanesbæ

Greinarhöfnudur, Hannes Friðriksson.