Aðsent

Jafningjastuðningur karla sem greinst hafa með krabbamein
Föstudagur 7. maí 2021 kl. 16:00

Jafningjastuðningur karla sem greinst hafa með krabbamein

Þann 8. maí ætlar Krabbameinsfélag Suðurnesja að bjóða upp á karlahitting fyrir karlmenn á öllum aldri sem hafa greinst með krabbamein. Það skiptir ekki máli hvar þú ert staddur í ferlinu né hvenær þú greindist með krabbamein, þú ert velkominn.

Þetta verkefni er partur af stuðningsneti þar sem krabbameinsgreindir einstaklingar geta spjallað saman og deilt reynslu sinni að greinast með krabbamein. Markmiðið með jafningjastuðning er að það getur verið hjálplegt að ræða við einhvern sem hefur skilning og gengið í gegnum svipaða reynslu. Rannsóknir sýna að þeim sem taka þátt í stuðningshópum líður oft betur og upplifa aukin lífsgæði. Þeir eru líklegri til að hafa meiri von og eru oft ákveðnir í því að takast á við viðfangsefnið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fyrsti hittingur verður þann 8. maí kl. 11.00 á þjónustuskrifstofu Krabbameinsfélags Suðurnesja, sem er staðsett í húsi Rauða krossins á Smiðjuvöllum 8.

Umsjón með hópnum er Árni Björn Ólafsson en hann greindist með ristilskrabbamein 10. september  2020

„Krabbi hefur tvær klær, ef þú hunsar aðra þeirra þá verður þú klipinn í rassinn“

„Skömmu eftir að ég greindist, þá leitaði ég til konu minnar eftir huggun og öxl til að gráta. Þetta var sjálfsögð viðbrögð af okkar hálfu, þegar annað okkur á bágt þá kemur hinn helmingurinn að hjúkra.

Í fyrra lenti ég í nokkrum hremmingum, uppsögn, móðurmissi og greindist með krabbamein. Þegar ég missti atvinnuna mína leitaði ég til konunnar minnar og hún hjálpaði mér í gegnum það. Þegar ég missti mömmu, þá leituðu við til hvors annars og saman fórum við í gegnum það. Þegar ég greindist með krabbamein, þá gekk gamla formúlan ekki upp og hversu mikið sem tárin féllu þá fengu við enga huggun. Svo að formúlan virki þá þarf annar aðilinn að vera í andlegu jafnvægi en ef báðir aðilar eru á botninum, þá er ansi erfitt að komast á yfirborðið.

Ég veit að konan mín vill vera sterki aðilinn því ég var sá sem veiktist en ég vil ekki leggja á hana meira en ég þarf því ég veit að hún er sjálf að glíma við andlegu hliðina sem aðstandandi krabbameinssjúklings.

Ég þarf að hugsa um að ef illa fer hjá mér, ef ég fyllist reiði eða dett í þunglyndi þá vil ég ekki að hún taki við því. Við huggum hvort annað með því að leita aðstoðar út á við, með því að vinna í okkur sjálfum og fá aðstoð frá öðrum.

Ég greindist en við fengum bæði sama krabbameinið sem við þurfum að tækla á sitt hvorum hætti:

* Ég fékk fréttir að það eru líkur á að ég lifi þetta ekki af og að líkaminn minn verður kannski aldrei eins þó ég sigri líkurnar, framtíðarplön og starfsframi eru sett ofan í skúffu.

* Konan mín fékk fréttir að það eru líkur að hún sé að fara að missa manninn sinn, að standa ein eftir 22 ára samband, ábyrgð, óvissan og óöryggi.

Ég get ekki rætt við hana um suma hluti, t.d. hversu ánægður ég er með allt sem ég hef upplifað, gamlar minningar og takmörkuð framtíðarsýn. Það minnir hana á að missa manninn sinn og þegar hún talar um líkurnar, endur meinvarp og fallna félaga, það minnir mig á dauðann.

Mér finnst þetta vera mjög mikilvægur tjáningamáti þar sem báðir aðilar geta tjáð sig á þennan hátt og sagt þetta upphátt á uppbyggilegum vettvangi. Þetta er allavega mín sýn á stuðningsneti krabbameinsgreindra og aðstandenda, að hver og einn hafi einhvern sem hlustar, skilur

Og hefur gengið í gegnum það sama.

Allir velkomnir og heitt á könnunni. Grímur og sóttvarnir á staðnum.

Sigríður Erlingsdóttir,
forstöðumaður Krabbameinsfélags Suðurnesja.

Árni Björn Ólafsson,
sjálfboðaliði og umsjónarmaður hópsins.