Aðsent

Hvað hefur núverandi meirihluti EKKI gert?
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 09:44

Hvað hefur núverandi meirihluti EKKI gert?

Eftir 8 ára stjórnarsetu núverandi meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur ýmislegt gengið á í samfélaginu. Þar ber helst að líta enn frekari niðurskurð á heilsugæslu, Covid og margt fleira sem hefur þurft að takast á við. Þetta eru kannski ekki beint hlutir sem stjórnvald sveitarfélagsins hefur einhverja stjórn á en allt hefur þetta verið leyst. Þetta eru flest allt einhverjir utanaðkomandi þættir sem bara birtust. 

Síðan er svo það sem stjórnvaldið hefur stjórn á, t.d snjómokstur, skuldaviðmið, jólagjafir starfsmanna, aðhald og viðhald góðra stjórnsýsluhátta.

Nú er langt gengið á þriðja ár síðan byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdir að tilvonandi heimili okkar fjölskyldunnar - hvernig gengur? Við bara bíðum. Svör á borð við tjahh... „það verður fundur á morgun“, „þetta er hið versta mál“, „skoðum málið“, „það er kannski réttast að einhver annar leysið málið“.  Hver stjórnar?

Þjösnaskapur sitjandi meirihluta, þöggun orðins hlutar sem var upphaflega samþykktur í júní 2017 og staðfestur á bæjarstjórnarfundi. Nú 5 árum seinna og tæpum 3 árum eftir að framkvæmdir að heimili okkar voru stöðvaðar af byggingarfulltrúa, með mjög svo sérstökum hætti, er ég ekki þess áskynja að neitt hafi breyst. Menn humma og hía hlutina fram af sér allt í boði útsvarsgreiðenda.

Ítrekað hefur undirritaður reynt að fá leyst úr máli sínu, bent á ólögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans en það hefur ekki skilað neinum árangri. Undirritaður hefur líka bent á ýmsar samþykktir sem eru í andstöðu við sama skipulag hverfisins sem framkvæmdin tilheyrir, en það hefur allt mætt tómum hljóðum eða svörum á þann veg „ekki á okkar vakt“

Sitjandi meirihluti hefur því virt meðalhófs- sem og jafnræðisreglur stjórnsýslulaga að vettugi.

Það hryggir mann þegar maður leitar til þeirra sem ætla til að mynda að hafa „hlutina í lagi“ eða „fyrir fólkið í bænum“ að mæta engum skilning á því tjóni og velferðaskerðingu sem ég og fjölskylda mín hefur orðið fyrir. Kannski eru þau bara fyrir fólkið hjá bænum?  Hér hefur átt sér stað hrein niðurtaka og það allt í boði sitjandi meirihluta.

Því miður eigum við of mörg dæmi um að mistök séu gerð á sviði byggingar- og skipulagsmála en það virðist bara vera í lagi, en ef einstaklingur sem telur á sér brotið og/eða fer upp á móti þessum embættum þá er það mín upplifun að mál séu dregin á langinn og reynt að gera allt sem erfiðast til úrlausna eins og hægt er.

Við leituðum til Umboðsmanns Alþingis vegna þessarar meðferðar og nú í apríl sl. lá álit hans fyrir. Niðurstaðan þar skýr, málsmeðferð þessara stjórnvalda var ólögmæt. Það getur ekki talist mjög svo ánægjuleg lesning fyrir sveitarfélagið að fá slíkan áfellisdóm líkt og raun ber vitni. En viti menn – æðstu stjórnendur Reykjanesbæjar eru eftir bestu vitund vissulega fúlir við niðurstöðuna enda ekki langt síðan þeir fengu ekki svo viðunandi úttekt í skýrslu frá Ríkisendurskoðun.

Af hverju skildi ég vilja og nenna að standa í svona deilu? Jú, framtíðarheimili fjölskyldu minnar og aleiga er vissulega undir og þá er mér ekki sama um það í hvað fjármunir okkar fara. Starfsmenn sveitarfélagsins eru þjónustufulltrúar, sem eru í vinnu hjá okkur. Útgáfa byggingarleyfa er stjórnsýsluákvörðun í skilningi laganna og er eftir því bindandi fyrir stjórnvald eða leyfisveitanda eftir að aðila hefur verið birt ákvörðunin.

Þetta snýst fyrst og fremst um réttaröryggi okkar allra, þ.e að eitthvað sé í raun að marka þau leyfi eða ákvarðanir sem gefnar eru út af bæjaryfirvöldum - eða eru þetta kannski bara einhverjar handþurrkur?
Það er ekki leyfishafi sem á að lenda á milli og blæða þegar ábending berst um að eitthvað sé að. Horfa verði til heildar hagsmuna, en sú vegferð sem byggingarfulltrúi valdi með stuðning frá núverandi meirihluta setur flesta á hausinn og það virðist bara vera allt í lagi.

Ég vona að þú, ágæti útsvarsgreiðandi Reykjanesbæjar,  sjáir þér allavega fært um að kjósa og kjósa eitthvað annað en það sem hefur verið við lýði síðustu 8 ár, því þeir geta ómögulega leyst einföld mál í líkingu við þetta, heldur vilja þeir að einhver annar geri það. Hvernig ætla menn þá að leysa stóru málin?

Ég óska engum að ganga í gegnum sambærilega meðferð og við fjölskyldan höfum upplifað nú á þriðja ár. Til að setja hlutina í samhengi, þá hefur heimsfaraldur riðið yfir jörðina og mönnum hefur tekist að finna upp bóluefni við þeirri veiru, á skemmri tíma en málsmeðferðartími þessa máls.

Þetta snýst ekki aðeins um mitt mál eins og ég sagði hér áður - þetta snýst um okkur öll, að eitthvað sé að marka hlutina sem gefnir eru út af sveitarfélaginu og að fólk fái úrlausn mála sinna á réttlátan hátt þannig að málsmeðferðartíminn fari ekki úr hófi fram, líkt og raun ber vitni.

Álit umboðsmanns má sjá hér: 
Álihttps://www.umbodsmadur.is/alit-og-bref/mal/nr/9195/skoda/reifunt og bréf - Umboðsmaður Alþingis (umbodsmadur.is)


Sverrir Örn Leifsson og fjölskylda.
Útsvarsgreiðandi.