Stuðlaberg Pósthússtræti

Aðsent

Heimanámsþjálfun - orðarýni 2
Laugardagur 27. febrúar 2021 kl. 07:21

Heimanámsþjálfun - orðarýni 2

Hugmyndin að rýna í orð er langt í frá að vera ný af nálinni. Þegar ég byrjaði fyrst að útfæra hugmynd í kennslu sem fólst í því að rýna í orð var skólaárið 2004–2005 þegar ég starfaði í Elsted-skóla í Árósum í Danmörku. Þá kenndi ég meðal annars dönsku sem annað mál og lagði áherslu á að kenna nemendum dönsku með sjónrænum hætti, að tengja orð við mynd og texta við myndræna framsetningu.

Haustið 2008 hóf ég störf við Njarðvíkurskóla og kenndi þá bæði á miðstigi og unglingastigi. Þá kynntist ég því fyrir alvöru að kenna lesblindum nemendum. Á þeim tíma var mín upplifun sú að fáir vissu hvernig best væri að nálgast kennslu lesblindra nemenda og jafnframt vissu nemendurnir sjálfir ekki hvernig best væri fyrir þá sjálfa að tileinka sér þekkingu í gegnum lestur og ritun. Helena Rafnsdóttir, grunnskólakennari og nú deildarstjóri í Njarðvíkurskóla, var þegar byrjuð að þróa aðferð í lestri og ritun fyrir lesblinda nemendur á þessum tíma sem mér þótti mjög áhugaverð. Ég leitaði til Félags lesblindra á Íslandi og fékk í gegnum félagið innsýn í þær áskoranir sem lesblindir einstaklingar voru að glíma við í námi og í daglegu lífi.

Ég var stöðugt að leita lausna, prófa mig áfram og í leit að aðferð sem myndi skila einhverjum árangri fyrir nemandann sjálfan. Það verður líka að segjast, að nemendur sem hafa ítrekað lent á vegg og átt erfitt í námi upplifa oft á tíðum mikið vonleysi í skólanum og eru mjög oft búnir að gefast upp. Það versta er að birtingamynd þessa vonleysis og uppgjafar er ekki alltaf nægilega sýnilegt kennaranum. Slíkt birtist gjarnan í neikvæðu sjálfsmyndartali nemandans, samtal sem nemandinn á við sjálfan sig, og í hegðunarvanda. Ekki nóg með það að nemandinn sjálfur upplifi tilfinningar af þessu tagi, þá er oftar en ekki staðan sú að foreldrið sjálft, jafnvel báðir, eiga sér erfiða og sára sögu úr skólakerfinu.

Þegar ég fékk mína fyrstu hugmynd að útfærslu með orðarýni þá var alls ekki auðvelt fyrir mig að sannfæra nemendur mína á unglingastigi um að prófa hana. Ég þurfti einhvern veginn að ávinna mér traust þessa nemendahóps. Ég ákvað því að bjóða öllum nemendum sem ég kenndi þá í 9. og 10. bekk námslega aðstoð á bókasafni Njarðvíkurskóla bæði á skólatíma (þegar þau voru í eyðum) og líka eftir skóla. Það var Guðný Karlsdóttir, grunnskólakennari, þá deildarstjóri og nú aðstoðarskólastjóri Njarðvíkurskóla, sem studdi mig í þessari viðleitni minni að nálgast þennan nemendahóp og finna aðferð sem gæti virkað. Það voru fjórir nemendur sem létu tilleiðast í fyrstu og ég kenndi þeim þessa frumaðferð mína. Það gekk betur en ég þorði að vona og árangurinn lét ekki á sér standa.

Eitt leiddi af öðru og þetta varð til þess að Ásgerður Þorgeirsdóttir, skólastjóri Njarðvíkurskóla, samþykkti að ég myndi kenna tveimur hópum, skólaárið 2012–2013, íslensku og dönsku með óhefðbundnum hætti, þar sem ég lagði meðal annars áherslu á þessa orðarýnisaðferð mína, nálgun í námi með myndrænni framsetningu og tengingu í raunverulegar aðstæður (þar sem við fórum á vettvang eða bjuggum til slíkar aðstæður í kennslustofunni). Ég leitaði út í samfélagið okkar á þessum tíma eftir aðstoð og Víkurfréttir tóku meðal annars vel í beiðni mína. Páll Ketilsson og Hilmar Bragi Bárðarson hjá VF tóku á móti mér og nemendum mínum í íslensku og fræddu þá um mikilvægi þess að geta skrifað og skapað texta, í hvaða tilgangi slík færni myndi nýtast.

Já, þetta tók mig fimm ár. Ég var að berjast við viðhorfin. Mín reynsla og upplifun af þróun í skólastarfi segir mér að það verður að vopna sig þolinmæði, þrautseigju og umburðarlyndi. Ég hélt áfram að bjóða nemendum upp á aðstoð við heimanám og hef gert það samfleytt í ellefu ár. Reynslan hefur kennt mér að aðferðir sem tengjast því að rýna í orð, orðhluta og vinna með orðaforða virka. Slíkar aðferðir byggja á kennslufræðilegum grunni, hafa margar verið rannsakaðar og skila árangri. Hér á landi hefur Guðmundur Engilbertsson, lektor við Háskólann á Akureyri, þróað og sett fram aðferðina Orð af orði „sem hefur þann tilgang að efla læsi og námsárangur barna og ungmenna. Heitið sprettur af orðaleik þar sem „orðaforði“ er sundurgreint á frumlegan hátt í orð-af-orði“ (nánari upplýsingar á https://hagurbal.weebly.com/).

Leikskólinn Tjarnasel hefur útfært aðferð í orðakennslu, í þróunarverkefni, sem leiddi síðan til útgáfu bókarinnar Orðaspjall - Að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Orðaspjall er aðferð sem mjög margir leikskólar hafa nú tekið upp í starfi sínu og einnig grunnskólar á yngsta stigi.

Í starfi mínu í Háaleitisskóla hef ég síðan útfært mínar eigin hugmyndir um orðakennslu í aðferðina Lærum saman í gegnum orðin í samvinnu við Jurgitu Millerienė, grunnskólakennara, nú deildarstjóra. Við hlutum tilnefningu til Hvatningaverðlauna fræðsluráðs Reykjanesbæjar fyrir aðferðina síðastliðið vor. Í næsta pistli ætla ég að útskýra fyrir ykkur hvernig þið getið notað þessa aðferð, og námstækni, heima fyrir með heimalestrarþjálfuninni. Því ef það er eitthvað sem við getum flest öll sinnt með barni okkar þá er það heimalestrarþjálfun.

Jóhanna Helgadóttir,
grunnskólakennari, mannauðsráðgjafi og verkefnastjóri.