Aðsent

Heilbrigðismál í Suðurnesjabæ
Þriðjudagur 14. mars 2023 kl. 17:19

Heilbrigðismál í Suðurnesjabæ

Í Suðurnesjabæ eru byggðakjarnarnir Sandgerði og Garður. Á árum áður voru heilsugæslustöðvar á báðum stöðum en þeim var lokað. Bæjaryfirvöld hafa unnið að málinu í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og einnig hafa átt sér stað samtöl við heilbrigðisráðherra og þingmenn kjördæmisins. Eftir sveitarstjórnarkosningar í vor hefur verið settur aukinn þrýstingur á ríkið að bæta úr þessari stöðu í sveitarfélaginu. En í málefnasamningi meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks segir að áfram verði unnið að því að tryggja íbúum sveitarfélagsins heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Suðurnesjabær er tæplega 4.000 manna sveitarfélag sem er næst stærsta sveitarfélag á Suðurnesjum á jafnframt það eina á svæðinu sem hefur hvorki heilbrigðisþjónustu né hjúkrunarheimili. Jóhann Friðrik Friðriksson, ásamt öðrum þingmönnum í Suðurkjördæmi, lögðu fram þingsályktunartillögu þann 08.11.2022 um heilsugæslusel í Suðurnesjabæ.

Sveitarfélagið hefur nú þegar boðið fram hentugt húsnæði undir starfsemina sem bæði er vel staðsett, með nægum bílastæðum og fyrsta flokks aðgengi á jarðhæð. Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa átt gott samstarf við HSS enda verkefnið til þess fallið að auka þjónustu við íbúa og um leið draga úr álagi á heilsugæslu HSS í Reykjanesbæ. Flugstöð Leifs Eiríkssonar er staðsett í Suðurnesjabæ, aukið álag má einkum rekja til gríðarlegrar fólksfjölgunar á Suðurnesjum, auk álags vegna komu ferðamanna og flóttamanna sem njóta þjónustu ríkisins á svæðinu. Samkvæmt viðmiðum um heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að heilsugæsluþjónustu á bilinu 8.000–12.000 manns. Heilsugæslusel sem sinna takmarkaðri þjónustu má finna víða um land og er starfseminni stýrt af heilbrigðisstofnunum á viðkomandi þjónustusvæði. Bæjaryfirvöld og íbúar í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að þjónustan verði endurvakin til að tryggja grunnþjónustu í vaxandi samfélagi sem er nú orðið næst stærsta sveitarfélag Suðurnesja og hafa stjórnendur HSS tekið undir þau sjónarmið. Eins og málið blasir nú við eru þrír byggðarkjarnar á landinu sem hafa enga heilbrigðisþjónustu. Þeir eru Garður, Sandgerði og Hellissandur. Tveir af þessum byggðarkjörnum eru staðsettir í Suðurnesjabæ. Þetta er staða sem íbúar Suðurnesjabæjar geta ekki sætt sig við.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Eftir þau uppbyggilegu samtöl sem við höfum átt við heilbrigðisráðherra og þingmenn í kjördæminu er það staðfest trú mín að þetta mál verði klárað. Um er að ræða stórt réttlætismál fyrir hag og velferð íbúa Suðurnesjabæjar.

Anton Guðmundsson,
oddviti framsóknar og formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ.