Aðsent

Geldingadalur tækifæri nýrra starfa á Suðurnesjum
Fimmtudagur 1. apríl 2021 kl. 10:30

Geldingadalur tækifæri nýrra starfa á Suðurnesjum

Allt útlit er fyrir að gosið í Geldingadal standi yfir í lengri tíma. Bráðaaðgerðir viðbragðsaðila hafa verið vel skipulagðar og lögregla og björgunarfólk staðið sig frábærlega. Ef væntingar jarðfræðinga rætast gæti gosið í Geldingadal staðið mánuðum, jafnvel árum saman.  Ef það verður raunveruleikinn þarf að gera framtíðaráætlanir um gæslu á svæðinu. Ekki er hægt að láta sjálfboðaliða sem skipa björgunarsveitirnar standa vakt á svæðinu  vikum og mánuðum saman. Fólk sem flest er bundið sínum atvinnurekendum og þarf að mæta til starfa, en nýtur velvildar á neyðarstund. Sú góða hugmynd að allir sem ganga á svæðið láti 1000 kr. rakna til björgunarsveitanna ætti að vera öllum létt í hendi. Það sama gildir um lögregluna sem er bæði fáliðuð og verkefnin þar á bæ hverfa ekki. Þau kalla á allt lögregluliðið til að sinna daglegum skyldum við samfélagið en aðrir sjái um gossvæðið.

Tækifæri fyrir reynslumikið fólk

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á Suðurnesjum er mesta atvinnuleysi á landinu og mikið af þaulreyndu fólki sem sinnt hefur eftirlits- og skoðunarstörfum á Keflavíkurflugvelli. Unnið við að leiðbeina fólki við komuna til landsins og er því þjálfað í að sinna og leiðbeina fólki. Flest af því talar fleira en eitt tungumál. Af hverju ekki að nýta krafta þessa fólks til eftirlits og aðstoðar ferðafólki á gosstöðvunum í Geldingadal? Skipulag og stjórnun eftirlitsstarfsins getur að sönnu verið hjá lögreglu og viðbragðsaðilum en störfin sem þarf að sinna og krefjast viðveru gætu komið frá fólki sem hefur beðið eftir því að losna af atvinnuleysisskrá.

Nýta tækifæri til sköpunar starfa

Með því að nýta þau úrræði sem Vinnumálastofnun hefur yfir að ráða og ríkisstjórnin hefur samþykkt og fjármagnað má skapa tugi, ef ekki hundruð, starfa á nýjum vettvangi. Verkefnið er frekast í höndum Grindvíkinga en í ljósi aðstæðna er eðlilegt að SSS, Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum standi á bak við verkefnið til að koma því af stað. Hvert nýtt starf fær greitt um 450 þús. á mánuði að viðbættu orlofi eða tæpar 500 þús. frá Vinnumálastofnun. Þá má hugsa sér að einhverskonar gjaldskylda stæði undir kostnaði sem fellur til vegna verkefnisins. Ekkert er því til fyrirstöðu að það verði einkaaðilar sem sjái um þetta verkefni með stuðningi sveitarfélaga og ríkis þar til önnur fjármögnun verður ákveðin.

Gjald eða kostnaður

Það þarf frumkvæði og dug til að keyra þetta verkefni í gang og nóg er af dugnaði á Suðurnesjum. Það þarf örugglega að rekast á einhverja veggi til að láta verkin tala og koma verkefninu sem fyrst af stað. En það má ekki verða til þess að draga þrótt úr mönnum að mistök eða minniháttar skakkaföll verði í fyrstu skrefunum. Það er alvanalegt þegar náttúrhamfarir eru í gangi að það þarf að hlaupa aðeins hraðar en fæturnir draga. Bílastæði, stígagerð og þjónustuhús eru innviðir sem mikilvægt er að koma upp sem fyrst til að hægt sé að bjóða upp á mansæmandi aðstöðu sem eðlilegt gjald er greitt fyrir. Gjaldtaka er eðlilega umdeild leið en hver er ósammála því að þeir greiði sem njóti og standi undir þeim kostnaði sem annars félli á sveitarfélögin eða ríkið? Þá er ekkert eðlilegt við það að sjálfboðaliðar í björgunarsveitum á Suðurnesjum og víðar að af landinu standi vaktir og haldi uppi eftirliti og nýti tæki sín án nokkurrar greiðslu þegar til lengdar lætur. Það mikilvæga fólk á að vera klárt í önnur verkefni sem eðlilega halda áfram að koma upp og sýna sífellt fram á mikilvægi björgunarsveita og viðbragðsaðila.

Sláum tvær flugur í einu höggi

Með því að skapa tugi starfa við gæslu og eftirlitsstörf í Geldingadal er ráðist að atvinnuleysinu þar sem það er erfiðast og þyngst. Við eigum að skapa þá umgjörð um einstaka auðlind sem gosið er þannig að eftir því verði tekið og við vöndum okkur að gera vel. Þjónusta ferðafólk sem margir atvinnulausir hafa gert allan sinn starfsaldur í flugstöðinni og auka öryggi gesta á svæðinu með því að skapa ný og áhugaverð störf í náttúru Íslands og slá þannig tvær flugur í einu höggi.

Ásmundur Friðriksson
alþingismaður.