Aðsent

Fjölskylduvænt samfélag
Föstudagur 12. janúar 2024 kl. 06:00

Fjölskylduvænt samfélag

Þann 13. desember síðastliðinn var samþykkt á bæjarstjórnarfundi Suðurnesjabæjar fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Sjá má skýrt að áhersla er lögð á stuðning við barnafjölskyldur og er það í samræmi við þau markmið sem Framsókn hefur lagt upp með frá kosningum. Mikilvægt er að hér sé vænlegt að búa og er stuðningur við barnafjölskyldur þáttur í því að laða að fjölskyldufólk í sveitarfélagið.

Mikilvægt skref sem var tekið þegar niðurgreiðsla á máltíðum nemenda í grunnskólum Suðurnesjabæjar var aukin úr 50% í 60% ásamt því að innleiddur var fjölskylduafsláttur sem þýðir að gjaldfrjálst verður fyrir börn frá sömu fjölskyldu umfram tvö börn. Það gerir börnum kleift jafnari aðgang að heitri máltíð í hádeginu. Heit máltíð í hádeginu tryggir m.a. að börn fái mikilvæga næringu og orku en holl og góð næring er grunnþáttur í þroska barna og ungmenna og mikilvæg fyrir vöxt og þroska. Þannig er verið að lækka greiðslubyrði á fjölskyldur er kemur að kostnaði vegna hádegismatar fyrir börn sem gefur aukið svigrúm fyrir fjölskyldur til að ráðstafa fé sínu í annað sem nýtist þeim.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Einnig má nefna að hækkaðar hafa verið umönnunarbætur fyrir foreldra sem ekki nýta dagvistun hjá dagforeldrum. Sú upphæð hækkar úr 45 þúsund krónum upp í 100 þúsund krónur fyrir hvern mánuð. Greiðslunum er háttað með þeim hætti að fyrsta greiðsla er að loknum réttindum til fæðingarorlofs og greiddar þar til barn fær inngöngu í leikskóla eða verður tveggja ára. Hér er skref tekið til að brúa bilið sem oft kemur til eftir að fæðingarorlofi lýkur og þar til að barn fær inngöngu í leikskóla. Mikilvægt er að gera foreldrum kleift á að vera heima með börnum sínum fyrstu tvö árin ef þess er kosið og er þetta mikil framför í þeim efnum.

Þá er niðurgreiðsla dagvistunargjalda hjá dagforeldrum hækkuð. Eftir að barn hefur náð átján mánaða aldri er niðurgreiðsla hækkuð úr 80 þúsund í 112 þúsund á mánuði m.v. átta klst. vistun þar til að barni verður boðin innganga í leikskóla.

Allt eru þetta mikilvægir þættir í því að styðja við barnafjölskyldur og á sama tíma eins og hefur komið fram brúa bilið sem oft reynist erfitt eftir að fæðingarorlofi lýkur.

Við í Framsókn erum gríðarlega stolt af þessum breytingum og munum halda áfram að styðja við og stuðla að því að í Suður-nesjabæ er gott að búa.

Úrsúla María Guðjónsdóttir,
bæjarfulltrúi Framsóknar í Suðurnesjabæ og formaður fræðsluráðs.