Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Ég á erindi við þig
Föstudagur 28. maí 2021 kl. 15:00

Ég á erindi við þig

Komið er að því að sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi velji frambjóðendur sína til Alþingis í kosningunum í haust . Nú er tækifæri til að skipa nýja forystusveit með konu fremsta meðal jafningja. Ég hvet flokksfólk til að taka þátt í prófkjörinu á laugardaginn kemur, 29. maí, og vænti stuðnings til að skipa fyrsta sætið á væntanlegum D-lista í kjördæminu.

Þetta tækifæri nota ég jafnframt til að þakka fyrir viðtökur, samtöl og kynni af fólki og fyrirtækjum í Suðurkjördæmi undanfarna daga og vikur. Ég er bæði þakklát og auðmjúk yfir hlýju viðmóti og meðbyr sem ég skynja að framboð mitt hafi í prófkjörinu og oddvitasæti framboðslistans þannig skipað í framhaldinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við blasa brýn og stór verkefni á ýmsum sviðum í kjördæminu og ekki annað í boði en að takast á við þau. Í hluta kjördæmisins er hlutfall atvinnulausra það hæsta sem mælist á Íslandi og skrifast að stórum hluta á veirufaraldurinn. Vonir standa hins vegar til að þar sé loksins tekið að birta og að ferðaþjónustan taki við sér með tilheyrandi áhrifum á atvinnulífið og efnahagslífið.

Heilbrigðismál og aðbúnaður aldraðra er sömuleiðis á margra vörum í kjördæminu og skyldi nú engan undra. Eyjamenn spyrja sig til að mynda hvort stjórnvöld hafi gert það ástand viðvarandi að konur þurfi að fara upp á meginlandið til að fæða börn sín með tilheyrandi raski og útgjöldum fyrir fjölskyldurnar? Ástandið á Suðurnesjum er kapítuli út af fyrir sig og óboðlegt með öllu. Í Suðurnesjabæ er hvorki heilsugæslustöð né hjúkrunarheimili, í samfélagi um 3.600 íbúa! Á Suðurnesjum eru þúsundir manna skráðir á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu af því eina heilsugæslustöðin í heimabyggð annar ekki nema hluta af þjónustu sem íbúarnir ætlast til að þeir fái og hafa rétt á.

Tvennt hef ég verið spurð um nær alls staðar á ferðum mínum um kjördæmið og því sé ég ástæðu til að svara því líka hér og nú. Önnur spurningin varðar aðild að Evrópusambandinu. Ég er á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið og tel ekki að það fari með hagsmunum Íslands. Hin spurningin lýtur að Miðhálendisþjóðgarði. Ég er ekki hlynnt þeim hugmyndum um risastóran Miðhálendisþjóðgarð eins og lagt er upp með í frumvarpi umhverfisráðherra.

Ég er stolt af því að tilheyra Suðurkjördæmi og býð mig fram til þjónustu fyrir það og íbúa þess með framboði til forystusætis á framboðslista Sjálfstæðismanna.

Ég brenn fyrir öflugu Suðurkjördæmi – öflugu Íslandi!

Guðrún Hafsteinsdóttir
Höfundur er frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.