Aðsent

Að kasta olíu á eldinn
Fimmtudagur 8. apríl 2021 kl. 18:37

Að kasta olíu á eldinn

Vegna hjásetu þegar ályktun bæjarráðs um lægra eldsneytisverð var lögð fram á fundi bæjarráðs þann 8. apríl sl. er rétt að skýra afstöðu okkar.

Að öllu jöfnu er bæjarráð ekki að álykta um verðlag á hinum almenna markaði en að sjálfsögðu viljum við lægra verð á eldsneyti og þykir miður að verðlagning taki mið að nálægð við alþjóðaflugvöll líkt og þekkist víða erlendis. En við viljum líka lægra matvöruverð, ódýrara rafmagn, lægri tryggingar, lægri húsaleigu og lækkun á verði í líkamsrækt en erum ekki að álykta um það í bæjarstjórn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Auðveldast hefði verið að fylgja straumnum, taka undir og líta vel út fyrir næstu kosningar, sem flutningsmaður tillögunnar er væntanlega að líta til. Spurningin er bara hvort sveitarstjórn á að vera með yfirlýsingar um verðlagningu á markaði þar sem samkeppni á að ráða ríkjum. Þar erum við ekki sammála meirihlutanum því við teljum vandséð hvar á að draga mörkin.

Ályktanir bæjarstjórnar hafa oftar en ekki snúið að samfélagsþjónustu s.s. betri samgöngum, bættri heilbrigðisþjónustu og fleira í þeim dúr. Við tökum ofan fyrir því fólki sem fer fyrir þessari baráttu og vonum að þeir nái árangri en teljum að bæjarráð eða bæjarstjórn sé ekki rétti vettvangurinn.

Margrét Sanders
Baldur Þ. Guðmundsson
bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ