Stuðlaberg Pósthússtræti

Viðskipti

Nettó bætir við sjö nýjum afhendingarstöðvum netverslunar
Miðvikudagur 12. júní 2019 kl. 14:10

Nettó bætir við sjö nýjum afhendingarstöðvum netverslunar

Stefnt er á að netverslanavæða allar verslanir Nettó fyrir árslok.

Nettó hefur opnað sjö nýjar afhendingastöðvar netverslunar víðsvegar um landið. Á Akureyri, Selfossi, Hafnarfirði, Búðakór, Grindavík, Krossmóa Reykjanesbæ og í Lágmúla. Alls eru stöðvarnar þá orðnar níu. Til stendur að fjölga afhendingarstöðvum enn frekar á komandi misserum og stefnan sett á að opna fyrir þjónustuna í öllum sautján verslunum Nettó fyrir árslok.

„Við erum að mæta eftirspurninni en allt frá opnun fyrstu afhendingarstöðvarinnar haustið 2017 höfum við fengið mikið af fyrirspurnum frá okkar viðskiptavinum um opnanir á fleiri stöðum. Krafan um tímasparnað, samhliða hefðbundum sparnaði þegar kemur að matarinnkaupum, er orðin sífellt meira aðkallandi. Við höfum frá fyrsta degi séð fyrir okkur að geta mætt þeim kröfum og höfum lagt mikla vinnu í að þróa og bæta kerfið svo það sé hægt. Við erum því afar ánægð og stolt yfir að vera komin á þann stað núna að geta boði viðskipavinum víðsvegar um landið, en ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu, upp á að nýta sér þjónustuna, “ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Netverslun Nettó hefur átt góðu gengi að fagna frá opnun hennar fyrir um tveimur árum síðan og viðtökur farið fram úr björtustu vonum. „Með því að opna á fleiri stöðum ætlum við okkur að bæta þjónustu okkar enn frekar, en við höfum kappkostað við að vera fremst í fararbroddi þegar kemur að matvöru á lágvöruverði á netinu og þetta er liður í því,“ segir Gunnar Egill.