Bygg
Bygg

Viðskipti

Guðmundur Bjarni eignast alla hluti í Kosmos & Kaos
Þriðjudagur 11. október 2016 kl. 15:27

Guðmundur Bjarni eignast alla hluti í Kosmos & Kaos

Guðmundur Bjarni Sigurðsson, stofnandi og hönnunarstjóri vefhönnunarstofunnar Kosmos& Kaos hefur nú keypt alla hluti í fyrirtækinu. Seljendur eru bandaríska vefstofan UENO LLC
og Kristján Gunnarsson, sem var annar stofnenda fyrirtækisins.



Frá upphafi hefur Kosmos & Kaos vakið athygli jafnt innanlands sem utan, fyrir oft og tíðum framúrstefnulega vefhönnun og góða forritun. Fyrirtækið hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja í ýmsum málefnum, svo sem samfélagslegri ábyrgð og lýðræðislegri ákvörðunartöku starfsfólks. Hópur viðskiptavina er afar fjölbreyttur, allt frá einyrkjum til fjármálastofnana, en líkt og aðrir hefur Kosmos & Kaos fundið vel fyrir stækkun ferðamannaiðnaðarins og hefur síðustu misseri unnið fjölmarga vefi og sérlausnir á því sviði. Meðal viðskiptavina má nefna Gagnaveitu Reykjavíkur, Arion banka, Sjóvá, Orkuveituna, Nordic Visitor og Vodafone.
 Þjónusta við samstarfsaðila og viðskiptavini mun ekki raskast við breytingarnar, að sögn Guðmundar, þótt markmið slíkra breytinga sé ávallt að gera enn betur.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Starfsstöðvar fyrirtækisins munu áfram vera á sama stað í Hafnargötu í Reykjanesbæ og Hólmaslóð í Reykjavík. Inga Birna Ragnarsdóttir mun halda áfram sem framkvæmdarstjóri.
 Kristján Gunnarsson segist yfirgefa fyrirtækið sáttur, en með söknuði þó. 
„Viðskilnaðurinn og salan á mínum hlut í félaginu er gerður í mesta bróðerni við Guðmund sem mun halda áfram að gera fínt fyrir Internetið, með því góða starfsfólki sem starfar hjá Kosmos & Kaos.“


Guðmundur segir bjarta tíma framundan hjá fyrirtækinu.
 „Kosmos & Kaos mun halda áfram á þeirri braut sem við mörkuðum við stofnun þess og vefa góða og metnaðarfulla vefi með okkar frábæra starfsfólki. Nú síðast bættist í hópinn Arnór Heiðar Sigurðsson, sem kemur til okkar hokinn af reynslu í vefbransanum úr suðupottinum í San Fransisco, þar sem hann hefur starfað í fimm ár. Hann verður forritunarstjóri hjá okkur. Framtíðin er því björt og þessar breytingar gera okkur kleyft að fara fersk fram á veg, um leið og við byggjum á okkar góða starfi.“