Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Veiðin þó nokkuð tregari hjá færabátunum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 1. desember 2023 kl. 06:04

Veiðin þó nokkuð tregari hjá færabátunum

Síðasti pistill fjallaði að miklu leyti um bátinn Maron GK sem á sér mjög langa sögu í útgerð á Suðurnesjum en því miður kom enginn mynd af bátnum inn í blaðinu – en við þekkjum öll bátinn og vonandi verður hægt að fara í það sem ég skrifaði um í síðasta pistli.

En áfram með smjörið. Þegar þessi pistill kemur þá er desember að ganga í garð og þar með er síðasti mánuður á árinu 2023 að hefjast. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Lítum aðeins á togarana núna í nóvember. Frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarsson GK kom með 644 tonn til Hafnarfjarðar í einni löndun og af því þá var þorskur 208 tonn. Hinn frystitogarinn sem Þorbjörn ehf. gerir út, Tómas Þorvaldsson GK, kom einnig til Hafnarfjarðar með 545 tonn og af því var þorskur 283 tonn. Sóley Sigurjóns GK er kominn með 525 tonn í fimm, landað í þremur höfnum, Jóhanna Gísladóttir GK 403 tonn í sex löndunum, landað í þremur höfnum og mest í Hafnarfirði en vegna þess sem er að gerast í Grindavík eru Vísisbátarnir, sem og Jóhanna Gísladóttir GK, tímabundið með heimahöfn sína í Hafnarfirði. Sturla GK 275 tonn í sex og Pálína Þórunn GK 180 tonn í þremur, landað í Sandgerði og Grundarfirði.

Nokkuð vel hefur gengið hjá netabátunum og er Friðrik Sigurðsson ÁR kominn með 108 tonn í nítján róðrum og mest rúm tíu tonn í einni löndun, Addi Afi GK með 28 tonn í tíu og mest 5,9 tonn og Sunna Líf GK 24 tonn í tíu og mest fimm tonn.

Hjá dragnótabátunum er Benni Sæm GK hæstur með 122 tonn í fimmtán róðrum, mest 22 tonn í róðri, og er báturinn í sjötta sæti yfir landið þegar þetta er skrifað. Siggi Bjarna GK í sætinu á eftir honum og með 108 tonn í fimmtán róðrum og mest átján tonn. Báðir þessir bátar, og líka Aðalbjörg RE, eru á veiðum inni í Faxaflóa, svokallaðir Bugtarbátar. Aðalbjörg RE landaði í Reykjavík og er kominn með 52 tonn í átta róðrum. Sigurfari GK með 100 tonn í fimmtán róðrum en hann hefur að mestu verið á veiðum á Hafnarleir sem eru þekkt dragnótamið. Maggý VE sem var í Sandgerði er kominn til Vestmannaeyja.

Hjá línubátunum er Sighvatur GK með 371 tonn í þremur, Páll Jónsson GK 355 tonn í þremur og Fjölnir GK 279 tonn í þremur, allir búnir að færa sig til Hafnarfjarðar. Valdimar GK er kominn á veiðar eftir nokkuð langt stopp út af bilun en báturinn hefur landað 148 tonn í tveimur róðrum og mest 116 tonn í einni löndun.

Helgi skipstjóri á Margréti GK er búinn að halda sig við sína heimahöfn, Sandgerði, síðan í ágúst og hefur gengið vægast sagt ansi vel. Núna er hann kominn með 97 tonn í tólf róðrum og þar af 16,5 tonn í einni löndun. Af þessum afla er þorskur 47 tonn.

Dúddi Gísla GK er líka að veiða frá Sandgerði út af því sem er að gerast í Grindavík og er kominn með 50 tonn í átta róðrum, af þeim afla eru um tuttugu tonn í Sandgerði. Katrín GK kom suður frá Siglufirði um miðjan nóvember og er búin að fara í tvo róðra, um þrettán tonn, Daðey GK kom líka til Sandgerðis undir lok nóvember frá Skagaströnd en hefur ekki landað þar þegar þessi pistill er skrifaður.

Færabátarnir hafa eitthvað komist út en veiðin er þó nokkuð tregari en var á sama tíma árið 2022.  Agla ÁR er með 1,9 tonn í þremur, Guðrún GK 1,3 tonn í tveimur og Dímon GK, sem er hæstur, er með 4,2 tonn í fjórum róðrum og mest 1,5 tonn. Allir í Sandgerði.

Mjög furðulegt að skrifa pistil um sjávarútvegsmál á Suðurnesjum þegar öll þessi óvissa er um hvað verður í Grindavík.