Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Þúsundum tonna af fiski ekið suður frá hinum ýmsu höfnum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 10. nóvember 2023 kl. 06:14

Þúsundum tonna af fiski ekið suður frá hinum ýmsu höfnum

Móðir náttúra hefur heldur betur verið upptekin núna síðan 2020. Þrjú eldgos og það virðist sem að fjórða gosið sé að hefjast – og það á stað sem er kannski ekki beint sá heppilegasti.

Gos hefur kannski ekki mikil áhrif á sjávarútvegshliðina nema ef pælingar vísindamanna ganga eftir en þeir hafa verið með allskonar fullyrðingar um að þetta og hitt geti gerst – ein pælingin er að hraun nái að loka höfninni til Grindavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Náttúran er eitthvað sem enginn getur stjórnað og sérstaklega eldgosi en hægt er að stýra hrauninu frá því að það hefði áhrif sjávarútvegslega séð, þannig að skaðinn yrði sem minnstur.

Annars má segja að nýliðinn október hafi verið gríðarlega góður fyrir útgerðir línubátanna í Grindavík því aflinn hjá bátunum var ansi mikill.

Einhamarsbátarnir voru með 505 tonna afla og af þeim var Gísli Súrsson GK með 202 tonn í átján róðrum. Stakkavíkurbátarnir voru með 523 tonn, það voru fimm bátar og var Hópsnes GK þeirra aflahæstur með 135 tonn í nítján róðrum.

Hjá Þorbirni ehf. komu á land 688 tonn af tveimur skipum, togaranum Sturlu GK sem var með 492 tonn og línubátnum Valdimar GK en hann bilaði og náði aðeins tveimur róðrum, samtals 195 tonnum.

Mikið var um að vera hjá Vísi ehf. því bátar á vegum þess fyrirtækis komu með á land alls 2.740 tonn, mestallt af þessu var frá línubátum nema 460 tonn sem komu frá togaranum Jóhönnu Gísladóttir GK. Páll Jónsson GK var með 709 tonn í fimm róðrum og Fjölnir GK 686 tonn í sex róðrum.

Hjá Nesfiski ehf. í Garði komu 1.347 tonn af sex bátum á land. Þremur dragnótabátum þar sem Siggi Bjarna GK var með 159 tonn í fimmtán róðrum, Margréti GK sem var með 130 tonn á línu og öllu landað í heimahöfn bátsins, Sandgerði. Svo voru tveir togarar, Sóley Sigurjóns GK með 505 tonn í fimm og Pálína Þórunn GK með 316 tonn líka í fimm löndunum.

Hjá Hólmgrími komu 204 tonn á land af þremur bátum og var Friðrik Sigurðsson ÁR með 159 tonn í 25 róðrum og allir þessir bátar voru á netum, hinir voru Sunna Líf GK og Addi Afi GK.

Þrátt fyrir þennan mikla afla var litlum hluta hans landað á Suðurnesjum, það voru einungis bátarnir hjá Hólmgrími og dragnótabátarnir frá Nesfiski, auk Margrétar, sem lönduðu í heimahöfnum sínum.

Þetta þýddi að um fimm þúsund tonnum af fiski var ekið frá hinum ýmsu höfnum á landinu, að mestu til Grindavíkur eða um 4.400 tonnum og um 700 tonnum í Garð og Sandgerði. Reyndar var meira af fiski ekið suður því í Sandgerði eru t.d. stór fiskvinnslufyrirtæki sem kaupa fisk á fiskmörkuðum og mestu af því er ekið suður til Sandgerðis.

Bílarnir frá Jóni og Margeiri hafa haft nóg að gera við að keyra fiski en auk þess eru Stakkavík og Einhamar bæði með sína eigin bíla í þessum miklum fiskflutningum.