Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Pistlar

Það verður áfram fiskur í sjónum við Suðurnes
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 17. nóvember 2023 kl. 06:00

Það verður áfram fiskur í sjónum við Suðurnes

Síðasti pistill byrjaði eitthvað á þeim orðum að móðir náttúra sé að láta heldur betur minna á sig. Og já, á heilli viku síðan síðasti pistill kom hafa all svakalegir hlutir gerst. Einn af stærstu sjávarútvegsbæjum landsins, Grindavík, er orðinn tómur.

Ætla nú ekki að fara mikið út í það hvað hefur gerst þarna, fréttamenn Víkurfrétta sjá um þá hlið, en sjávarútvegslega séð, þegar þessi pistill er skrifaður, er verið að sigla bátum úr höfninni í Grindavík og í nálægðar hafnir. Flestir fara til Sandgerðis, t.d. er björgunarbáturinn Oddur V Gíslason frá Grindavík þar. -Research GK kom þangað líka, þessi bátur er glænýr en hefur þó aðeins farið í eina sjóferð. Særós GK og Agla ÁR eru líka komnir til Sandgerðis.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Dúddi Gísla GK er líka kominn til Sandgerðis en þó þessi bátur sé gerður út frá Grindavík, og landi iðulega öllum aflanum sínum þar, er sterkt tenging við Sandgerði út af nafninu Dúddi Gísla GK. Báturinn Dúddi Gísla GK er nefndum eftir fyrrum skipstjóra sem hét Þórhallur Gíslason sem var skipstjóri í ansi mörg ár á bátum frá Sandgerði, til að mynda á Hamri GK 12, Munin GK 342 og Sæunni GK 343.

Á árunum 1961 til og með 1965 var Dúddi Gísla aflahæsti skipstjóri í Sandgerði á vetrarvertíð öll þessu fimm ár – og árið 1961 veiddi hann 976 tonn í 83 róðrum, allt á línu á Hamar GK og varð þá í öðru sæti yfir allt landið. Einungis Binni á Gullborg VE var aflahærri. Árið 1964 varð Dúddi Gísla í öðru sæti yfir allt landið á Sæunni GK og efstur var þá Sigurður Sigurðsson, skipstjóri á Náttfara ÞH, en báðir réru frá Sandgerði. Eftir að skipstjórn lauk hjá Dúdda Gísla var hann hafnarvörður í Sandgerði í tuttugu ár og því má segja að Dúddi Gísla sé kominn heim aftur.

Þegar þessi pistill er skrifaður eru flestir bátanna farnir úr Grindavík og líka Bjarni Þór sem er hafnsögubátur Grindavíkarvíkurhafnar, hann er líka kominn til Sandgerðis.

Lítum aðeins á aflatölur. Títtnefndur Dúddi Gísla GK hefur landað sautján tonnum í þremur róðrum í Grindavík og Margrét GK er með 36 tonn í fimm í Sandgerði en þessir tveir eru einu línubátarnir á veiðum við Suðurnesin. Reyndar kom Katrín GK til Sandgerðis.

Úti á landi er Sighvatur GK með 270 tonn í tveimur róðrum á Skagaströnd, Páll Jónsson GK 141 tonn í einum í Grindavík, Fjölnir GK 111 tonn í einum í Grundarfirði, Óli á Stað GK 74 tonn í níu, Daðey GK 49 tonn í sex, Geirfugl GK 27 tonn í fjórum og Gulltoppur GK 10 tonn í tveimur róðrum, allir á Skagaströnd og Siglufirði.

Þrír af þessum bátum eru Stakkavíkurbátar og núna mun aflinn frá þeim fara á fiskmarkað því ekki er hægt að vinna fisk í Grindavík út af þessum náttúruhamförum.

Hjá dragnótabátunum er Benni Sæm GK með 63 tonn í sjö róðrum, Siggi Bjarna GK 55 tonn í sjö og Sigurfari GK með 45 tonn í sjö róðrum, allir í Sandgerði.

Netabátarnir eru einungis þrír; Friðrik Sigurðsson ÁR með 42 tonn í átta róðrum, Addi Afi GK með ellefu tonn í þremur og Sunna Líf GK sex tonn í fimm, allir að veiða fyrir Hólmgrím. Friðrik að landa í Njarðvík hinir landa í Keflavík.

Minni togararnir hafa landað í Þorlákshöfn, t.d. Sturla GK, Áskell ÞH og Vörður ÞH. Pálína Þórunn GK kom með 45 tonn í Sandgerði í einni löndun.

Vægast sagt sem að náttúran er heldur betur að láta til sín taka og enginn veit hvernig þetta endar en eitt er víst, það verður fiskur áfram í sjónum við Suðurnes og því mun útgerð halda áfram frá svæðinu.