Pistlar

Skólakerfi í mótun um aldamótin 1900
Sunnudagur 22. maí 2022 kl. 06:54

Skólakerfi í mótun um aldamótin 1900

Í 10. þætti var fjallað um fræðslu barna á heimilum áður en skólar komu til. Eftir að skólar tóku til starfa í Vatnsleysustrandarhreppi og í Garði 1872 voru næstu ár stofnaðir barnaskólar á þéttbýlum svæðum víða um land. Að auki urðu þá til nokkrir kvennaskólar, þrír bændaskólar, tveir gagnfræðaskólar, læknaskóli, stýrimannaskóli, iðnskóli, verslunarskóli – og loks Háskóli Íslands 1911. Bygging og rekstur fyrstu barnaskólanna byggði alfarið á áhuga og dug einstakra manna, því skólaskylda var engin og þáttur ríkis og sveitarfélaga rýr. 

Árið 1880 setti Alþingi lög um kennslu í skrift og reikningi, en kennsla lesturs og kristnfræði hafði verið lögskipuð frá 1790.  Landssjóður hóf 1878 að styrkja barnafræðslu í landinu með u.þ.b. 2000 kr. framlagi á ári og hafði það hvetjandi áhrif. Árið 1887 er einnig farið að styrkja farkennara til sveita, fyrst um 50 kr. kennara á ári. Var framlag ríkisins til menntamála um 22 aurar á mann á ári um 1890 og komið upp undir 50 aura árið 1900. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Árið 1889 taka tuttugu kennara á öllum skólastigum sig til og stofna Hið íslenska kennarafélag (HÍK). „Tilgangur fjelagsins er, að efla menntun hinnar íslenzku þjóðar, bæði alþýðnmenntunina og hina æðri menntun, auka samvinnu og samtök milli íslenzkra kennara og hlynna að hagsmunum kennarastjettarinnar í öllum greinum andlegum og líkamlegum.“ Félagið barðist fyrstu árin fyrir löggjöf um menntun í landinu, sem skilaði loks árangri 1907, er Alþingi setti fræðslulög og ríki og sveitarfélög taka ábyrgð á skólagöngu tíu til fjórtán ára barna, þau verða skólaskyld.

Árið 1892 er stofnuð Kennaradeild við Flensborgarskólann sem þá var tveggja ára gagnfræðaskóli. Það var að frumkvæði Jóns Þórarinssonar og eftir reglugerð landshöfðingja. Kennaradeildin var fyrst um sinn fáeinar vikur, frá 1. apríl til 14. maí, auk þess var kennd uppeldisfræði vetrarlangt í eldri deild gagnfræðaskólans. Voru 5 nemendur í kennaradeildinni fyrsta vorið og fáir næstu ár, enda var kennsla ekki eftirsótt ævistarf. Jón flutti tillögur í ræðu og riti og á Alþingi næstu ár um tveggja ára sérstæðan kennaraskóla sem varð loks að veruleika 1908, sama ár og fræðslulögin tók gildi. Kennaranámið hafði þó lengst í 7 1/2 mánuð 1896 og árlegur ríkisstyrkur hækkað í 2200 kr. Kennaradeildin í Flensborg starfaði í 17 ár og útskrifaði 121 kennara.

Árið 1901 veitti Alþingi Guðmundi Finnbogasyni styrk til að kynna sér lýðmenntun erlendis. Efir dvöl í Danmörk, Noregi og Svíþjóð ritar hann tímamótabókina Lýðmenntun. Síðan er honum falið að kanna ástand menntunar um land allt – 160 árum eftir könnun Harboe – og út kom „Skýrsla um fræðslu barna og unglinga veturinn 1903 – 1904“. Þar kemur m.a. fram að 47 skólahús eru í landinu (þar af tvö á Vatnsleysuströnd) og kennslustaðir 814 (flestir inni á heimilum). Árleg skólagjöld voru 8–18 kr. og tók karlmann 30–70 klst. að vinna fyrir þeim. Í sveitum var víða kennt í baðstofum innan um heimilisfólk, mörg dæmi um að börn gátu ekki skrifað fyrir kulda, og engin kennsluáhöld til. Þá nutu 5.400 börn skólafræðslu, u.þ.b. helmingur barna á þeim aldri. Alls staðar var kenndur lestur, reikningur, skrift, kver og biblíusögur; víðast í föstum skólum auk þess kennd réttritun, náttúrusaga og landafræði; og fáeinum stöðum saga, danska, söngur, íþróttir og handavinna stúlkna. 415 manns fengust við kennslu, flestir í hjáverkum, og höfðu 24 þeirra gengið í kennaraskóla (flestir í Flensborg) og sextán voru guðfræðingar. 

Vegur skóla landsins fór vaxandi. Árið 1906 voru skólabörn í Reykjavík 406, greitt fullt skólagjald fyrir 180 þeirra, hálft gjald fyrir 106 og 50 nutu styrks úr Thorkilliisjóði.

Árið 1907, eftir átatuga baráttu, var lögfest skólaskylda tíu til fjórtán ára. Hannes Hafstein ráðherra fylgdi málinu fast eftir á þingi. Börn skyldu koma læs í skólann á tíunda ári, svo áfram var krafa um heimilisfræðslu. Við fullnaðarpróf fjórtán ára áttu börnin að geta lesið og skrifað íslenskt mál ritvillulaust, vita eitthvað um mestu menn, kunna kvæði og ættjarðarlög, skrifa læsilega snarhönd, kunna kristin fræði til fermingar og fjórar höfuðgreinar reiknings og flatarmál. Með tilkomu þessara mikilvægu laga styttist þó skólavist barnanna hér í sveit. Í 2. grein reglugerðarinnar um Thorkilliskólann, sem sett var við stofnun hans 1872, er inntökuskilyrði að barnið sé orðið fullra sjö ára, og að auki heimild til að taka inn fermda unglinga (fjórtán ára og eldri). Þannig verða þessi lög til að stytta skólagöngu barna í Vatnsleysustrandarhreppi, en fjárframlag ríkisins var kærkomið.

Næstu verulegu lagaumbætur urðu 1929, um stofnun héraðsskóla. Kann það að hafa kynt undir hugmynd um að hér yrði byggður heimavistarskóli, en teikning þar að lútandi var lögð hér fram 1933. Árið 1929 kom fyrst út námskrá fyrir barnaskóla landsins. Fræðslumálastjórnin fór að senda út prófverkefni um allt land, í skrift, stafsetningu og reikningi, en sérstakir pródómarar höfðu þá tíðkast lengi. Bjarni námstjóri fór yfir og sendi endurgjöf til skólanna. Árið, 1929 var árangur hér í sveit í  meðallagi á landsmælikvarða.

Árið 1936 var skólaskylda frá sjö ára aldri sett í lög og skólaárið lengt um einn til tvo mánuði. Var yngstu börnunum kennt haust og vor næstu ár. Fram að því mun hafa tíðkast einkakennsla fyrir yngri börn. 8. nóvember 1930 skrifuðu fjórir feður á Vatnsleysuströnd skólanefndinni bréf og föluðust eftir kennslu fyrir börn sem ekki voru orðin skólaskyld. T.d. árið 1949 var enn vorskóli til maíloka fyrir börn yngri en níu ára, við skóla á Suðurnesjum.

Aðalheimild: Gunnar M. Magnúss 1939: Saga alþýðufræðslunnar. Einnig Fréttir úr skólunum, Faxi, júní 1949.