Pistlar

Sjórinn er fullur af fiski
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 20. maí 2022 kl. 06:39

Sjórinn er fullur af fiski

Jörðin hérna á Suðurnesjunum heldur áfram að skjálfa og jarðfræðingar segja annaðhvort komi gos eða ekki.

Þetta minnir um margt á starfsmenn Hafrannsóknarstofnunarinnar eða Hafró. Sjórinn í kringum Ísland er fullur af fiski og þá sérstaklega þorski en Hafró gengur illa að finna hann eða mæla og því er kvótinn ekki meira en hann er nú þegar. Held að hver sem er geti sagt nú gýs eða ekki gýs og hérna er þorskur.  Þetta kvótaár var kvótinn skorinn ansi mikið niður og það hefur bersýnilega haft áhrif á afla og sjósókn báta frá Suðurnesjunum, t.d voru dragnóta bátarnir frá Nesfiski með hátt í 200 tonna minni afla á bát núna á vertíðinni. Rétt skriðu yfir 400 tonn hver bátur.  Sama má segja um netabátana hans Hólmgríms. Mikið aflahrun hjá þeim,  t.d var Maron GK með aðeins um 390 tonn á vertíðinni 2022, en um 570 tonn árið 2021. Grímsnes GK var með um 580 tonn á vertíðinni 2022 en 914 tonn árið 2021.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Reyndar er rétt að hafa í huga að veðráttan var ein sú allra versta í manna minnum í janúar og febrúar og  hafði  það mikil áhrif á sjósókn bátanna, og það skýrir að nokkru leyti minni afla núna á vertíðinni miðað við vertíðina 2021.

Og það fækkar í fiskiskipaflota Suðurnesjamanna, því Þorbjörn hf. í Grindavík lét línubátinn Hrafn GK fara í burtu, á lokadegi vertíðarinnar 11. maí enn honum var siglt til Belgíu og fer þar í brotajárn. Þar með á Þorbjörn aðeins einn línubát, Valdimar GK. Hinir línubátarnir voru Sturla GK, Tómas Þorvaldsson GK og Hrafn GK, sem reyndar hét Ágúst GK. 

Allir þessir þrír línubátar áttu  það sameiginlegt að hafa verið loðnubátar og verið breytt í línubát.  

Valdimar GK aftur á móti er eini línubáturinn af þessum fjórum sem var keyptur til landsins og sérhannaður sem línubátur. Hann kom til landsins árið 1999, og átti þá Valdimar hf. í Vogum bátinn,  hét hann fyrst Vesturborg GK 125, en fékk Valdimar GK nafnið tíu dögum eftir að báturinn kom til landsins. Þorbjörn eignaðist bátinn þegar að sameiningin við Valdimar í Vogum átti sér stað.

Hrafn GK sem er nú búinn að yfirgefa okkur var smíðaður í Noregi árið 1974 og var því orðinn 48 ára gamall. Hann kom fyrst til Vestmannaeyja árið 1975 og hét þá Gullberg VE 292.

Var báturinn fyrst óyfirbyggður og var byggt yfir bátinn árið 1977 en 1995 var báturinn lengdur og varð þá 53 metra langur. Fullfermi af loðnu var um 800 tonn á bátnum. Báturinn hét Gullberg VE til ársins 1999, þegar hann fékk nafnið Gullfaxi VE. Lítil útgerð var á bátnum frá árunum 1999 til 2002 þegar Þorbjörn ehf. kaupir bátinn árið 2002 og fór báturinn í sinn fyrsta róður sem línubátur í ágúst sama ár. Hét þá fyrst Ágúst GK og árið 2015 fékk báturinn nafnið Hrafn GK 111 eftir að frystitogari sem að Þorbjörn átti var seldur, en sá togari hafði heitið Hrafn GK og fékk því línubáturinn það nafn. Þess má geta að allir þessir bátar fóru árið 2009 í siglingu erlendis með afla sem veiddur var á línu og síðan þá hefur enginn bátur frá Íslandi farið í siglingu erlendis með afla. Hrafn GK fór tvær ferðir erlendis í mars árið 2009 og samtals með 274 tonn, fyrst með 141 tonna afla.