Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Sértu velkomin heim
Föstudagur 24. nóvember 2023 kl. 06:05

Sértu velkomin heim

Við keyrum eftir Reykjanesbrautinni í gamalkunnri hálkunni og skafrenningi. Flugstöðin er að hverfa okkur úr augsýn og við okkur blasir bærinn. Fallegi bærinn minn. Enn með hellurnar í eyrunum og jólaprófin í töskunni spjalla ég við pabba, sem iðulega sækir mig á flugvöllinn þegar fiðrildið vill heim, og bíð full tilhlökkunar eftir því að komast inn um dyrnar heima. Ganga inn í hlýlegt húsið og bera gamla jólaskrautið okkar augum enn eitt árið. Finna heimilislyktina og um leið öryggið. Fá fjölskylduhundinn hlaupandi í fangið og henda mér svo á rúmið mitt eftir langt ferðalag. Hvergi betra að vera.

Mér verður hugsað til allra þeirra skipta sem ég kom heim í frí þau sex ár sem ég bjó á Spáni. Að koma heim á bestu tímum ársins, í jólasjarmann og svo aftur yfir bjartasta tíma ársins. Tilfinningin var engri lík. Að ganga um borð í flugvélina og heyra í fyrsta skipti í langan tíma flugfreyjurnar bjóða mér góðan daginn á mínu móðurmáli. Fá mér appelsín og íslenskt súkkulaði með alvöru lakkrís á leiðinni. Flugmaðurinn bauð okkur velkomin heim þegar hjólin snertu loks flugbrautina á skerinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Heim. Heim að knúsa fjölskylduna, ömmu og afa, vinina og gæludýrin. Heim í rúmið mitt. Heim þar sem hvert götuhorn, hver sjoppa og hvert kennileiti vekur upp minningar frá æsku- og unglingsárunum. Þar sem  maður sér kunnugleg andlit hvert sem maður fer. Meira að segja fann ég hvað ég hafði saknað flugvélagnýsins, eins mikið og ég þoldi hann ekki hér áður fyrr. Taka gamla góða rúntinn upp og niður Hafnargötuna og stoppa í einn Villaborgara, bragðaref eða karamellusnúð. Það var toppurinn á tilverunni.

Þið kannist eflaust við tilfinninguna við að koma heim í kotið ykkar eftir langt sumarfrí erlendis. Það myndu fáir leggja af stað ef þeir vissu að þeir ættu ekki afturkvæmt. Ég veit að ég hefði aldrei farið nema vera viss um það að ég kæmist aftur heim. Nú er hinsvegar stór hópur fólks sem á engra annarra kosta völ en að halda sig fjarri heimilum sínum, ýmist vegna náttúruhamfara eða stríðsátaka. Það er ekki öruggt að vera heima þó að heima sé best. Það sem áður myndaði eina samstæða heild hefur nú sundrast í allar áttir í leit að nýjum griðarstöðum. Þar sem allt annað þarf að víkja fyrir aðlögunarfærni heilla fjölskyldna í óvissu. Minningasköpunin heldur ótrauð áfram í takt við tímann, hvort sem hún er góð eða slæm. Flestir hugsa þó heim og myndu hvergi annarstaðar vilja vera en einmitt þar.