Sælla minninga
Ég er svo heppin að í þetta skiptið birtast lokaorðin á 33 ára afmælisdeginum mínum. Það einkennilega við afmæli, þegar maður kemst á þennan aldur, er að í dögun vonar maður hálfpartinn að enginn viti af því, að engum detti það í hug að syngja eða gera stórmál úr deginum enda afmælin orðin alltof mörg fyrir svoleiðis uppákomur. Í lok dags skipta kveðjurnar, söngurinn og knúsin svo miklu meira máli en maður gerði sér grein fyrir og hlýja manni um barnslegar hjartarætur.
Í minningunni voru afmælin bestu dagar ársins. Tíminn ætlaði aldrei að líða og þátturinn með afa í sjónvarpinu virtist mun lengri en venjulega. Mamma að bardúsa í eldhúsinu og pabbi að skúra. Þegar gestirnir fóru að birtast einn af öðrum í dyragættinni líktist veisluborðið helst hlaðborði í fermingarveislu og heyra mátti smelli í spariskóm á skínandi parketinu, sem seinna átti svo eftir að klístrast af Hi-C og Frissa fríska. Undir fallegum prinsessupappírnum leyndust bleikir buffaló skór og nýi Írafár geisladiskurinn.
Tilhlökkunin yfir afmæli húsmóðurinnar að þessu sinni er mest hjá börnunum tveimur sem fóru með pabba sínum í gjafaleiðangur niður á Hafnargötu og geta vart beðið eftir að færa afmælisbarninu pakkann þegar hún vaknar. „Mamma! Við megum ekki segja þér að við keyptum ræktarbol og blómavasa handa þér. Það er leyndarmál!“ kalla þau um leið og þau ganga inn um dyrnar og hlaupa svo skríkjandi inn í herbergi til að pakka inn háleynilegum herlegheitunum. Hlutverk þess yngri er að gægjast fram á þriggja mínútna fresti til að fullvissa aðra meðlimi leynimakksins um að afmælisbarnið liggi ekki á hleri. Fram undan hurðinni skoppar ein blaðran fram á gang og sú eldri gólar á pabba sinn að ná henni inn aftur áður en upp um þau komist. Eftir önnur þrjátíu ár átta ég mig kannski á því að þetta voru einmitt bestu dagar ársins.